07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

55. mál, lækningaleyfi

*Magnús Gíslason:

Mér þykir rétt að gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef gerzt flm. að þessu frv. Það er sökum þess, að ég lít svo á, að hitt frv., á þskj. 80, um heimildina til að greiða 4 aðstoðarlæknum laun úr ríkissjóði, mundi ekki ná tilgangi sínum, nema með því móti, að þetta ákvæði verði sett í l. Ég álit, að fyrir svo lág laun, 300 kr. á mánuði, auk dýrtíðaruppbótar, mundi að öðrum kosti ekki vera hægt að fá menn til að taka að sér þessi störf. En hitt þóttist ég sannfærður um, eins og mér reyndar heyrist flestir hv. þm. vera, sem talað hafa í málinu, að full nauðsyn væri á því að koma einhverri breyttri skipun á þessi mál til þess að fyrirbyggja, að héruð yrðu læknislaus, og veita læknum kost á að fara að heiman úr héraði sínu um tíma, þegar þeir þurfa á því að halda.

Aðalmótspyrnan gegn þessu frv. virðist mér vera byggð á því, að því er haldið fram, að hér sé um þvingunarl. að ræða gagnvart læknanemum, sem eru búnir að taka próf og vera á spítala, að vera svo skyldaðir til að gegna slíku embætti fyrir lág laun. Enda þótt ég viðurkenni, að það séu talsverðar búsifjar fyrir þessa menn að bæta við sig 6 mánaða vinnu í læknishéraði samkv. þessu frv., áður en lækningaleyfi er veitt, þá álít ég, að þeir séu ekki verr settir en aðrir kandidatar frá háskólanum. Vil ég í því sambandi benda á lögfræðinga, sem verða að vinna í þrjú ár hjá bæjarfógetum eða dómurum til þess að geta orðið skipaðir í dómaræmbætti. Og þeir, sem ætla að gerast málaflutningsmenn fyrir undirrétti, verða að leysa af hendi prófraun, þ.e. flytja nokkur mál fyrir undirrétti, sem getur tekið nokkurn tíma að afljúka, vegna þess að ungir menn geta átt erfitt með að fá svo vandasöm mál til flutnings, að talizt geti prófhæf. Það getur þannig dregizt um ótakmarkaðan tíma, að þeir geti fengið rétt til að verða málaflutningsmenn.

Hitt má deila um, hvort 300 kr. á mánuði sé sómasamleg borgun handa þessum mönnum. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að landlæknir skuli semja við héraðslækna um víst og kjör aðstoðarlækna. Og það er gert ráð fyrir því, að þeir fái frítt uppihald á þeim stöðum, þar sem þeir dvelja. Auk þess er alls ekki útilokað, að landlæknir geti samið við einstaka héraðslækna, sem þessir aðstoðarlæknar dveljast hjá, um, að þeir fái einhverja launauppbót frá héraðslækninum sjálfum. Á þeim tímum, sem nú eru, er ekki hægt að segja, að 300 kr. á mánuði sé mikið kaup, þegar ýmsir handiðnamenn hafa slíkt kaup á viku. Hins vegar þykir mér fulllangt gengið í þessari brtt. frá hv. þm. Hafnf. (BSn), að færa þetta kaup í 500 kr. á mánuði. En ég vil gera brtt. um það til samkomulags, að launin verði hækkuð úr 300 kr. í 400 kr. á mánuði, ef brtt. yfirleitt verða bornar undir atkv.