09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

55. mál, lækningaleyfi

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er í rauninni ekkert sérstakt, sem ég þarf að taka fram í sambandi við þetta mál, enda varð ég að víkja mér frá og gat ekki hlustað á nema nokkuð af því, sem hér hefur komið fram. Ég vil þó segja, að það er ekki nema rétt, af við gerum of lítið að því í skipun okkar læknamála að fyrirbyggja sjúkdóma og veikindi, og ef til vill ræður það einhverju, að læknarnir eru svo margir praktiserandi og hafa beinlínis tekjur af því, að veikindi séu í landinu, og þurfa að hafa tekjur af því. Ég minnist á það vegna þess, að mér er þetta sjónarmið á engan hátt ókunnugt. Ég hef hugsað talsvert mikið um þetta. Ég studdi verulega að því á sínum tíma, að settar yrðu upp berklavarnarstöðvar, sem hafa haft miklu meiri áhrif en menn gerðu sér von um í byrjun. Það sýnir manni þá leið, sem ætti að fara á fleiri sviðum, Það er nú til athugunar, hvort ekki ætti að hafa þessar heilsuverndarstöðvar víðtækari en fyrir berkla. Hitt er annað mál, hvað langt er hægt að ganga í því að ákveða laun lækna eftir því, hversu gott er heilsufar í umdæmum þeirra. Hitt sé ég ekki að sé rétt, að menn greiði ekki fyrir læknishjálp, því að það gæti þá orðið eins og í sjúkrasamlögum sums staðar erlendis, þar sem aðsóknin er svo mikil vegna alls konar kvilla og ímyndaðra kvilla, að læknar komast ekki yfir að stunda sjúklinga, sem þarf að stunda. Það þarf að fara einhvern meðalveg.

Ég vil alls ekki segja, að læknar fáist ekki í afskekktustu héruðin, af því að þeim sé of lítið borgað. Ég benti á, að þó að þessi rök væru borin fram af hendi læknanna, — og ég vil að sjálfsögðu ekki rengja þau, heldur taka þau til athugunar og reyna að gera læknakjörin í afskekktustu héruðunum sambærileg við kjör þeirra, sem eru í sæmilegum héruðum, — þá mundi þetta alls ekki vera meginástæðan, og hef ég því alls ekki viðurkennt, að það sé meginástæðan. Ég benti sérstaklega á Reykjarfjarðarhérað, sem er afskekkt, en þar er Djúpavík og Ingólfsfjörður, og þar er margt fólk á sumrin og mikið að gera, svo að jafnvel ungir læknar hafa farið þangað á sumrin til að stunda þar lækningar, af því að það þótti arðvænlegt. En þrátt fyrir þetta hefur ekki fengizt héraðslæknir á þennan stað. Þetta virðist mér benda til þess, að það muni valda meiru, að menn hliðri sér hjá að taka við afskekktum héruðum vegna þess, hve erfið ferðalögin eru þar. Þess vegna er það, að ég vil koma allverulega á móti læknum. En ef leiðrétt eru launakjör þeirra, sem eru í afskekktum héruðum, þá er ekki hægt að segja, að verið sé að beita þvingun við menn til að gegna störfum, sem séu illa launuð.

Það hljóta allir að sjá það, hvílíkur háski er á ferðinni, þegar ekki er hægt að ná í neinn lækni, og það hefur á fleiri en einum stað valdið dauðaslysum, sem ef til vill hefði verið afstýrt, ef læknir hefði verið fáanlegur. Tvö af þessum slysum eru svo sorgleg, að ég vil ekki leiða það inn í þessar umr. Þetta er það, sem þetta fólk verður að búa við, ef læknar fást ekki til þess að sinna þessum störfum, og það er ómögulegt fyrir þjóðfélagið að komast hjá því að beita þvingunarráðstöfunum í þessu efni, ef annað reynist árangurslaust. En ég get ekki betur séð en þetta sé svo sanngjörn lausn á þessu máli, að enginn þm. geti andmælt því, að hún verði farin. Ég ætla ekki, nema frekara tilefni gefist til, að lengja umr. um þetta mál. Ég vil ekki fara að ræða um það, hvernig praksis lækna í kaupstöðunum er yfirleitt, en þó vil ég aðeins geta þess, að fjöldi þessara manna býr við sultarkjör, a.m.k. til að byrja með. Þessir menn munu yfirleitt búa við mikið lakari kjör heldur en þeir, sem fara út í afskekktu héruðin, svo að það er ekki eingöngu launahlið þessa máls, sem veldur því, að læknar fást ekki í þessi héruð.