11.05.1942
Neðri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

55. mál, lækningaleyfi

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Ég get verið hv. 4. þm. Reykv. sammála um það, að með þessu frv. eða frv. tveimur sé ekki á æskilegasta hátt séð fyrir læknamálum dreifbýlisins. Mér er fyllilega ljóst, að það er ekki það æskilegasta, að þessi héruð fái lækna, sem eru nýkomnir frá prófborðinu og hafa kannske ekki að jafnaði stundað lækningar áður, en æskilegast er að tryggja þessum héruðum menn, sem hafa þekkingu og reynslu, en það stendur þannig á, eins og mörgum er kunnugt, að ekki virðist vera hægt að tryggja ýmsum læknishéruðum þá krafta, sem æskilegt væri. Þessi leið, sem hér er stungið upp á, er úrræði, sem menn vilja reyna, ekki af því að menn langi til þess eða telji það æskilegast, heldur af því, að annað virðist ekki vera fyrir hendi. Og það geta menn ekki komizt hjá að viðurkenna. Og það veit ég, að hv. 4. þm. Reykv. fæst líka til að viðurkenna, að nú er óþolandi ástand í stórum læknishéruðum hér á landi, þar sem mest er einangrunin og fólk hefur að ýmsu leyti minnsta möguleika til að bjarga sér, ef sjúkdómar eða slys koma fyrir. Það er óþolandi, að slíkum héruðum sé fyrirmunað að fá læknishjálp, og það er ekki vansalaust fyrir Alþ. að reyna ekki að ráða bót á því. Í þessu sambandi vil ég benda á, að hér er aðeins um heimildarl. að ræða, sem er ekki gert ráð fyrir að nota, nema menn fáist ekki til þessa starfa á annan hátt.

En þar sem hv. 4. þm. Reykv. talaði um, að þyrfti að greiða svo góð laun fyrir þessi störf, að menn vildu taka þau að sér, þá er ég ekki viss um, að það sé einhlítt að greiða há laun. Það eru líka takmörk fyrir, hvað þingið telur, að fært sé að bjóða í laun fyrir eins manns starf. Ég held, að það sé ýmislegt annað, sem orkar eins mikið um, að menn fást ekki til að vera í þessum héruðum. Í frv. um aðstoðarlækna, sem nú hefur verið afgr. til Ed., þá er heimilt að greiða aðstoðarlæknunum allt að 400 kr. á mánuði, en eins og upplýst hefur verið í d., þá er ætlunin sú, að héraðslæknar, sem fá þessa menn, borgi þeim einnig nokkurt kaup, og verði samkomulag um, hvað það er mikið. Það er því engan veginn tilætlunin, að þessir menn eigi ekki að fá nema 400 kr.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að taka fleira fram. Ég vænti þess, að hv. 4. þm. Reykv. og aðrir góðir menn sannfærist um, að það verður að reyna að fara þessa leið og sjá, hvernig það gefst.