11.05.1942
Neðri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

55. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Það þarf ekki alltaf að fordæma að setja bót á slitið fat. Það getur verið, að það sé betra en að láta flíkina vera rifna.

Út af því, að allshn. hefði átt að rannsaka þetta mál nánar, þá hefur hún ekki haft mikinn tíma til þess. Hún er mjög störfum hlaðin og mun vera sú n., sem flest mál fær til meðferðar. N. hefur átt tal um þetta við landlækni. Hann hefur lagt eindregið með því, að þetta frv. verði samþ., að sjálfsögðu að athuguðu máli. Hv. 4. þm. Reykv. telur þessa leið mjög slæma, en sjálfur hefur hann ekki bent á neina færari leið. Hann segir, að hægt væri að setja l. um, að læknar, sem væru í útkjálkahéruðum ákveðinn tíma, sætu fyrir betri störfum, þegar um þau v æri að ræða. Það hefur oft verið talað um, að þetta væri eðlileg aðferð, en þó geta á því verið ýmsir gallar. Það er ekki víst, að heppilegt sé að fela lækni t.d. forstöðu fyrir stóru sjúkrahúsi í kaupstað, þó að hann hafi verið lengi í afskekktu héraði. Það er engan veginn gefið, að hann sé vel til þess fallinn, þó að hann kunni að hafa reynzt ágætur héraðslæknir. Það mun reynast erfitt í framkvæmdinni að láta þjónustualdur lækna ráða, þegar ráðstafa á betri læknishéruðum. Það er því engan veginn víst, að þessi regla yrði réttlátari eða betri á nokkurn hátt. Ég geri líka ráð fyrir, að kandídatar muni sætta sig við þau ákvæði, sem þegar er verið að lögfesta, þegar til framkvæmdanna kemur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta mál.