12.05.1942
Neðri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

55. mál, lækningaleyfi

*Helgi Jónasson:

Frv. þetta á þskj. 92 er nú búið að vera fyrir hv. Ed. og fékk þar góða afgr., svo að ég vænti þess sama í þessári hv. d. Það er rétt, sem hv. 7. landsk. tók fram, að í l. þessum er um nokkra þvingun að ræða, ef ákvæðum er fylgt fram. En þetta er af nauðsyn, því að það hefur reynzt ákaflega erfitt að fá lækna út í héruðin. Og þessa heimild á alls ekki að nota, nema brýna nauðsyn beri til. Því er margbúið að lýsa yfir.

Um brtt. skal ég ekki fara mörgum orðum, en mér sýnist þær heldur óþarfar. Ég get ekki séð, að það skipti miklu máli fyrir kandidata, hvort þeir eru skyldaðir til þessarar þjónustu í 4 eða 6 mánuði. Það var fyrst talað um eitt ár, og þótti ýmsum ekki of langur tími, en til samkomulags við lækna og kandídata var horfið að því að stytta tímabilið í 6 mánuði. Um launakjörin, sem hv. þm. var að tala um, er það að segja, að byrjunarlaun eru ákveðin upphæð, og mundu þeir, sem fara í héruðin til þessara starfa, fá þau og tekjur fyrir læknisvitjanir að auki. Sé ég ekki, að þeir séu verr tryggðir en aðrir læknar, sem þessu verða að sæta, og getur ekki talizt illa farið með ungan lækni, þó að hann sitji við sama borð og læknirinn, sem í héraðinu hefur verið. Í lakari héruðum fá menn strax launahámark, og það mundu kandídatar líka fá. Í þessum fámennu héruðum, sem helzt vantar lækna, eru því launakjörin mjög sæmileg. Þeir hafa líka læknisbústað með góðum kjörum, og sumir áhöld og lyf, sem ríkið leggur til.

Þá talaði hv. 7. landsk. um bréfið frá læknum í Reykjavík. Ég hef ekki séð bréfið, en mér er kunnugt, að ýmsir læknar hér eru alls ekki á móti þessu og telja þetta sanngjarnt, eins og kom fram á fundi stúdenta. Og utan af landinu hafa borizt símskeyti frá mörgum læknum, sem eru mjög fylgjandi þessu máli og telja mikla bót, ef frv. yrði að I.

Ég tel brtt. ekki stórvægilegar, en tel rétt að fella þær.