02.05.1942
Neðri deild: 46. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

81. mál, eignarnám hluta af Vatnsenda

Skúli Guðmundsson:

í grg., sem fylgir þessu frv., er talið, að málið sé fullskýrt með bréfi frá borgarstjóra Reykjavíkur og öðru bréfi frá Skógræktarfélagi Íslands, sem bæði eru prentuð með grg. Ég hef lesið þessi bréf, en þau hafa ekki getað sannfært mig um, að rétt sé að samþ. frv., eins og það liggur fyrir. Í bréfi skógræktarfélagsins er sagt, að í erfðaskrá Magnúsar heitins Hjaltested sé ákveðið, að ekki megi selja jörðina Vatnsenda. Í sama bréfi er bent á, að bærinn geti tryggt sér hluta af landi jarðarinnar með því að leigja það um alla framtíð. Ég skal játa, að ég er með öllu ókunnugur þeirri erfðaskrá, sem hér er nefnd og kveður svo á, að ekki megi selja jörðina Vatnsenda. En mér finnst það óviðeigandi, að Alþ. ákveði með löggjöf að brjóta niður ákvæði erfðaskrárinnar að nauðsynjalausu. Ég segi að nauðsynjalausu, þar sem ég tel, að Reykjavíkurbær geti fengið umráð yfir þessari landspildu án þess að fella fyrirmæli erfðaskrárinnar úr gildi. Ef ekki nást samningar um það, væri hægt að óska eftir lögum um leigunám á landi þessu um ótakmarkaðan tíma, og með því yrði ekki breytt fyrirmælum hins látna jarðareiganda.

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. flm. þessa frv., hvort yfirvöld Reykjavikurbæjar muni hafa gert tilraun til þess að fá þessa landspildu á leigu, en ef það hefur ekki verið gert, þá hvort þeir telji ekki rétt að reyna þá leið, áður en óskað er eftir afskiptum Alþingis af málinu. Sjái þeir þess engan kost, vil ég skjóta því til hv. flm., hvort þeir vilji ekki breyta frv. þannig, að í staðinn fyrir „eignarnámi“ komi leigunám á þessu landi. Ég játa, að ég er ókunnugur staðháttum þarna, en dreg það ekki í efa, sem hér er haldið fram, að hentugt væri fyrir Reykjavíkurbæ að fá landskika þarna til varanlegra umráða. En sé þörf lagasetningar, tel ég réttara að samþykkja lög um leiguafnot heldur en að fara með Alþingisdómi að ógilda erfðaskrá, sem fyrrverandi eigandi jarðarinnar hefur gert.