09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

81. mál, eignarnám hluta af Vatnsenda

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Frv. þetta er borið fram eftir ósk borgarstjóra Reykjavíkur, og fer það fram á, að heimilað verði að taka eignarnámi nokkurn hluta jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi í þeim tilgangi að auka við fyrirhugað friðland Reykvíkinga, „Heiðmörk“, sem í ráði er að girða. Ástæðan fyrir því, að frv. er borið fram, mun vera sú, að Skógræktarfélag Íslands hefur með bréfi, dags. 18. febr. s.l., boðið Reykjavíkurbæ að leggja fram nokkurn hluta girðingarkostnaðar um þetta land með því skilyrði, að það land, sem hér um ræðir, sem er nokkur hluti af landi Vatnsenda, verði tekið með. Ástæðan til þess, að farið er fram á þessa eignarnámsheimild, mun vera sú, að ekki hafa tekizt samningar um kaup á þessu landi. En svo mun hafa verið ákveðið í erfðaskrá frá fyrri eigenda jarðarinnar, að ekki mætti selja þetta land, og núverandi eigandi mun ekki telja sig hafa rétt til að selja þetta land. Eina leiðin til þess að ná þessu landi er því sú, að taka það eignarnámi, og er getið um það í grg. Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um stærð þessa lands, en í bréfi skógræktarfélagsins er sagt, að það sé ekki ýkjastórt. Aftur á móti mun þetta vera gott sauðland, og mun verða tekið tillit til þess við mat á þessu landi og greiðslu skaðabóta í sambandi við söluna. Mál þetta gekk slysalaust gegnum hv. Nd., og allshn. þessarar d. hefur athugað það og ekki séð ástæðu til þess að gera neinar breyt. á frv. og leggur því til, að það verði samþ.