17.03.1942
Neðri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

40. mál, læknisvitjanasjóður

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Eins og hv. þd. er kunnugt, voru sett um þetta lög á seinasta reglulegu Alþ. En þegar átti að fara að framkvæma þessi l., kom í ljós, að á þeim voru ýmsir ágallar, sem nauðsynlegt var að lagfæra.

Það er gert ráð fyrir því í þessum l., sem um læknisvitjanasjóði voru sett, að visst framlag af hálfu ríkissjóðs komi gegn framlagi þeirra héraða, sem stofna til þessara sjóða. Og þegar farið var að athuga, hvernig fjárhagsútkoma fyrir þessa einstöku staði yrði, kom í ljós, að styrkirnir, sem sum pláss höfðu til þess að kosta læknisvitjanir, voru hærri en þær fjárhæðir, sem lagðar höfðu verið til sjóðanna frá ríkinu samkv. l. um læknisvitjanasjóði. Það var þess vegna fjarri því að þessi l. yrðu nokkur réttarbót, heldur það gagnstæða, svo að menn mundu ekki leggja út í að stofna þessa sjóði til þess að hafa af því fjárhagslegt gagn. Það er því gert ráð fyrir, að framlögin verði svipuð og í þeim l., sem um þetta voru sett. En þar sem nú eru greiddar nokkrar fjárhæðir til þess að kosta læknisvitjanir, þá er hér gert ráð fyrir, að þær renni í þessa sjóði, þannig, að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir að verði greidd samkv. þessum l., verði greidd til viðbótar því, sem nú er greitt, enda auðsætt, að annars kom þetta misjafnt niður samanborið við þá styrki, sem nú eru veittir til þeirra staða, er hafa sérstaklega erfiða aðstöðu til læknisvitjana.

Enn fremur hefur sú breyting verið á gerð, sem einnig sýndi sig að vera nauðsynleg, að hér er heimilað, að einstakir hreppar megi vera sér um sjóði. Þetta kom í tjós, þegar átti að fara að stofna þessa sjóði. Ég hygg, að landlæknir hafi fyrstur rekið sig á það, þegar hann heimsótti pláss nokkur á Norðurlandi, að það eru ákaflega lítil félagssamtök um þetta út fyrir þau svæði, sem hrepparnir marka. Hann rak sig á það t.d. við Hrútafjörð, að öðrum megin fjarðarins töldu menn ástæður sínar svo bærilegar, að þeir kærðu sig ekki um að vera með. Hinum megin fjarðarins var þetta gagnstætt. Þess vegna er gert ráð fyrir því hér, að einstakir hreppar megi vera sér um sjóði.

Þetta eru þær tvær meginbreyt., sem gerðar hafa verið á l. frá því að gengið var frá þeim á síðasta þingi. Og þær eru gerðar vegna þess, að þeir ágallar komu í ljós, að ekki þótti fært að framkvæma þau, ef þau áttu að koma að notum. Eftir að landlæknir hafði séð þessa galla og athugað málið, beitti hann sér fyrir að þessar breyt. yrðu gerðar. Frv. er flutt eftir hans till. og undirbúið af honum.

Ég vænti þess, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þetta frv., og vil óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.