30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

84. mál, jarðræktarlög

*Jón Pálmason:

Við 1. umr. málsins lýsti hv. 2. þm. Skagf. afstöðu landbn. til þess og sagði, sem rétt er, að n. hefur orðið sammála um þau ágreiningsatriði, sem í frv. sjálfu felast, en samkomulag hefur ekki að neinu leyti náðst um ágreiningsmálið sjálft. Ég og hv. þm. Borgf. flytjum brtt. um afnám 17. gr. jarðræktarl., en það deilumál er kunnugt öllum hv. þm. og raunar um land allt, og tel ég því enga þörf að fara um það mörgum orðum. En aðalatriðið er, að með þessari 17. gr., en hún var sett inn í l. 1936, er svo fyrir mælt, að jarðræktarstyrkurinn, sem áður var kvaðalaus, skuli vera sem kvöð á jörðunum. Nú kemur þetta mjög glöggt í ljós, þegar farið er að meta jarðirnar eftir hinu nýja fasteignamati, þá er nokkur hluti, sem eigendur jarðanna eiga ekki. Sem sé, það er kvöð, sem er á lögð vegna jarðræktarstyrksins. Við flm. brtt. teljum, að þetta sé ekki heppilegt skipulag og viljum hafa jarðræktarstyrkinn kvaðalausan, eins og áður var. Ég skal ekki fara sérstaklega út í málið, nema tilefni gefist til. Þetta mál er svo kunnugt, að atkv. ættu að geta skorið úr því, án þess að fram færu langar umr.