30.04.1942
Neðri deild: 45. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

84. mál, jarðræktarlög

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég get tekið undir það m,eð hv. þm. A.-Húnv., að ég tel ekki þörf á löngum umr. um þetta mál, vegna þess að það er áður margrætt, ekki einungis hér á hæstv. Alþ., heldur einnig á búnaðarþingi og víðar. Ég skal geta þess, án þess að endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., þegar ég mælti fyrir þeim brtt., sem hér liggja fyrir, að árið 1939 var sett mþn. í málið, og var henni sérstaklega falið að athuga 17. gr. jarðræktarl. Sú n. náði raunar samkomulagi um það, að stofnaður skyldi sjóður á þann hátt, að sölugjald af jörðum skyldi renna í hann. Hugmyndin var með öðrum orðum sú, að ef jarðirnar seldust yfir fasteignamati, þá rynni nokkur hluti af því, sem væri fram yfir fasteignamat, í sérstakan sjóð, sem væri í umsjón búnaðarfél. hreppsins, og átti hann að vera til almennra nota. Þetta sölugjald hækkaði eftir því, sem verðið fór meir fram úr fasteignamatsverði. Ég skal ekki fara frekar inn á þetta, en sú hugsun, sem lá til grundvallar fyrir þessari málamiðlun, var sú, að koma í veg fyrir það, að jarðirnar hækkuðu óeðlilega í verði. Ég skal lýsa yfir því, að ég er fús til að breyta þessu ákvæði, ef eitthvað annað kemur í staðinn, sem gæti gert meira gagn. Því hefur oft verið haldið fram af ýmsum, er mest andmæla þessu ákvæði, að þetta geri ekki neitt gagn. En þá vil ég segja það, að þá fer að verða lítið úr því, að þetta sé stórkostlega hættulegt ákvæði. Það fór þannig í n., að hún náði samningum við búnaðarþing, og skal ég lýsa yfir því, að ég er samþykkur þeirri höfuðstefnu, sem þar var tekin. Mín afstaða er sú í þessu máli, að ég vil ekki láta breyta 17. gr., fyrr en samþykki bænda á búnaðarþingi hefur náðst um það, og því mæli ég á móti brtt. og sé mér ekki fært að greiða atkv. með henni. En er búnaðarþing hefur tekið stefnu um þetta mál, mun ég vel sætta mig við hana og beygja mig fyrir henni, af því að ég trúi því, að búnaðarþingið taki málið farsælum tökum.

Ég skal nú ekki lengja umr. um þetta mál út af fyrir sig. En í sambandi við það þykir mér ástæða til að koma inn á ýmislegt með tilliti til yfirstandandi tíma.

Það vofir stórfelld hætta yfir sveitunum um stórkostlega verðhækkun jarða og brask með þær. Ég vil nefna eitt dæmi, er ég þekki. Peningamaður úr Reykjavík hefur nýlega keypt stóra kostajörð í sveit. Sjálfur yrkir hann hana ekki, heldur ræður til sín hjón til umsjónar jörðinni og borgar þeim 12–.14 þús. kr. í árslaun. Út af fyrir sig er nú náttúrlega ekki snefill af búviti í svona framkvæmdum. En aðalatriðið er þau áhrif, sem þetta hefur á sveitina eða umhverfið í kring. Þetta getur eitrað ótrúlega út frá sér, þótt tiltölulega. fá dæmi væri um að ræða.

En þetta snertir nú ekki beint málið, en er þó í sambandi við það.