12.05.1942
Efri deild: 55. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

84. mál, jarðræktarlög

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég flyt brtt. við 3. gr. frv., þ.e.a.s. 11. gr. jarðræktarl., sem er ekki annað en endurtekning á máli, sem ég hef flutt hér hvað eftir annað í frumvarpsformi.

Síðast þegar ég flutti þetta mál, en það var á s.l. ári, þá var frv. í því formi, að 1. gr. þess frv., sem ég flutti þá, var shlj. 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Ég tel ekki neina nauðsyn á því að fara út í nákvæmar útskýringar á þessum breyt., af því að ég hef hvað eftir annað mælt fyrir þeim .í þessari hv. d., svo að hv. þdm. munu allir, sem með því hafa fylgzt, kannast við það. Ég get aðeins endurtekið það, að aðalatriði þessara breyt. er í því fólgið, að það er ekki gerður greinarmunur á styrkjum til býla fyrst og fremst eftir þeirri reglu, hvað býlin hafa fengið mikinn styrk, heldur hinu, í hvaða ásigkomulagi býlin eru, þannig að samkvæmt till. mínum skal greiða 100% hærri styrk til býla, sem hafa minna en 8 ha. af véltæku túni. Til býla, sem hafa frá 8 til 10 ha. af véltæku túni, skal greiða styrk til jarðræktar og húsabóta skv. 9. gr. l., en þegar túnin eru komin upp í 10 ha., greiðist enginn styrkur. Sama gildir um styrk til annarra mannvirkja. Það er hærri styrkur til þeirra, meðan býlið er í því ásigkomulagi, að þessi mannvirki vantar, en þegar allt er komið í gott horf, fellur styrkurinn niður. Auk þess er gerður munur á styrkjunum eftir því, hvað býlið hefur fengið mikinn styrk. Það er 30% hærri styrkur Samkv. 1. og 5. kafla 9. gr. til býlis, sem hefur fengið meira en 2000 kr. Þegar þau hafa fengið 6000–7500 kr., verður styrkurinn minni o.s.frv. Styrkurinn fellur niður, þegar býlið er komið í það ásigkomulag, sem þarna greinir.

Í samræmi við þetta er breyt. á 5. gr. frv. (13. gr. l.) Ég tel eðlilegt, að þetta hámark verði ákveðið árlega af Búnaðarfélagi Íslands.

Ég þarf ekki að fara út í frekari rökstuðning fyrir þessu. Ég hef svo oft flutt þau rök áður. Styrkurinn á að hafa þann tilgang að koma býlum landsins í það horf, að þau séu byggileg. Það á að útrýma kotbýlunum og stuðla að því, að þau geti orðið samkeppnisfær við stærri býlin, en það á ekki að veita ríkisstyrk til neins atvinnurekstrar, sem gefur af sér gróða. Við vitum, að frá sjónarmiði alþjóðar er sjálfsagt, að eftir þessu sé farið, svo lengi sem við búum við það fyrirkomulag í landbúnaðinum, að hann byggist á einkarekstri. Verðlag á afurðunum verður að fara eftir framleiðslukostnaði smæstu býlanna, ef bændur þar eiga ekki að flosna upp, og ef á að halda þessum býlum byggðum áfram, verður að veita styrk til þeirra. Til þess að halda bændum í sveitinni og stuðla að því, að þeir séu þar kyrrir, verður að sjá til þess, að þeir hafi slík kjör, að það borgi sig eins vel fyrir þá og að hverfa til annarra starfa. Við vitum, að það eru einkum smærri bændur, sem þurfa að fara burt frá heimilum sínum.

Ég vil geta um smáprentvillu, sem ég vil biðja hæstv. forseta að sjá um, að leiðrétt verði. Í staðinn fyrir „samkv. 9. gr. á að koma „samkv. 10. gr.