16.03.1942
Neðri deild: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Sveinbjörn Högnason:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sjálfsagt til bóta á ýmsa lund, og er mjög réttmætt, að tekið sé til athugunar að hækka þessi framlög, eftir því sem byggingarkostnaður eykst. Þó er atriði í þessu frv., sem ég vil benda á, og vænti þess, að sú n., sem fær málið til meðferðar, taki til athugunar. Það er ákvæðið um það, hvaða skilyrði eru sett fyrir því að geta fengið styrk til bygginga, sérstaklega 2. liðurinn, sem hv. flm. hafa sett inn: „Að jörðin sé í sjálfsábúð eða falli undir ákvæði l. um erfðaábúð og óðalsrétt: M.ö.o., leiguliðar eru útilokaðir með öllu frá þessum byggingarstyrk, ef þetta verður samþ. Nú er hv. þm. kunnugt um, að fyrir fáum árum var sett breyt, inn í l. um .það, að leiguliðar geti fengið byggingarstyrk eftir l. um byggingar- og landnámssjóð, þar til þeir falli undir ákvæði ábúðarl. frá 1933, um húsabótaskyldu landsdrottins, og jarðeigendum væri skylt að byggja yfir þá. Þetta ákvæði félli niður, ef brtt frv. væri samþ. Nú er það svo, að ábúðarl. eru að fullu komin til framkvæmda, eða eiga að vera það eftir bókstaf þeirra. En það veit hver maður, sem eitthvað er kunnugur þeim málum, að upp undir helmingur af öllum búendum í landinu eru leiguliðar. Og fjöldi af þeim eru leiguliðar hjá ríkinu. En það er ekki byggt yfir þá, enda þótt l. standi til þess, að framkvæma ætti það án tafar, og bæirnir séu að hrynja yfir þá. Og þegar ríkið gerir ekki það, enda þótt það ætti eftir l. að gera það, þá er ekki undarlegt, þó að eigendur jarða, sem eru í einkaeign, telji sér ekki skylt að byggja yfir ábúendur á jörðum sínum. Ég sé ekki betur en að það verði til stórra óþæginda fyrir þessa menn, ef fellt er burt ákvæðið um heimild til að veita ábúendum á jörðum, sem eru í einkaeign, styrk samkv. 1. frá 1941, en þetta ákvæði sett inn í l., sem hér er í frv., því að þá væru þeir útilokaðir frá því að geta byggt yfir sig, þó að þeir séu um það bil helmingur af búendum landsins og það liggi við um ýmsa þeirra, að þeir verði að flýja burt af jörðunum, vegna þess að ekki er byggt upp á þeim af ríkinu eða einstökum mönnum, sem eiga jarðirnar. Ef þetta ákvæði á að setja inn í l. þessi sem skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum, þá er alveg óumflýjanlegt, að ríkið verður að leggja fram stórfé til þess að byggja upp á jörðum, svo að hægt sé fyrir ábúendur þeirra að vera þar áfram, þá menn, sem eftir l. á jafnvel að vera búið að byggja yfir.

Ég vona, að n. sú, sem fær mál þetta til meðferðar, láti sér ekki til hugar koma að fella úr gildi ákvæðið um styrk úr byggingar- og landnámssjóði til leiguliða, meðan ríkið sjálft gegnir ekki skyldu sinni um að byggja yfir leiguliða, sem búa á jörðum, sem eru í eign ríkisins.