07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og nál. á þskj. 128 ber með sér, leggur landbn. til, að frv. verði samþ. Þó er það eitt ákvæði í 2. gr. frv., sem nm. hafa óbundnar hendur um, hvernig þeir greiða atkv.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara langt út í þetta mál, en vil þó með örfáum orðum minnast á þær brtt., sem hér eru gerðar við l. um byggingar- og landnámssjóð. Eins og fram er tekið í grg frv. á þskj. 51, eru þessar breyt. allar bein eða óbein afleiðing af þeirri miklu verðröskun, sem orðið hefur, síðan styrjöldin hófst. Hún hefur gert það óumflýjanlegt að gera breyt. á l. varðandi það, hversu mikið lán skuli heimilt að veita hverjum lántaka, og fleira í þessu sambandi.

Í 2. gr. er að finna aðalbreyt., sem fyrirhuguð er á byggingar- og landnámssjóði, þar sem 12. gr. l. um byggingar- og landnámssjóð er alveg orðuð um. Ég sé ekki ástæðu til þess hér að koma frekar inn á einstök atriði þar heldur en ég gerði við 1. umr. málsins, þegar frv. var fyrst flutt hér í þessari hv. d. Þó vil ég aðeins koma inn á það atriði, sem hv. nm. vildu ekki allir skuldbinda sig til að fylgja, en það er það ákvæði frv., að heimilt sé í víssum tilfellum að greiða hærri byggingarstyrki en l. heimila, ef ábúendur jarða verða fyrir stórkostlegu tjóni af völdum húsbruna. Þetta ákvæði var af okkur flm. frv., sem eigum sæti í nefnd þeirri, er úthlutar þessu fé, ekki sett af neinu handahófi, heldur af þeirri ástæðu, að við höfum rekið okkur á þau dæmi á síðari árum, að það virðist nauðsynlegt að veita sérstaka undanþágu í þessu efni. Nú er, það að vísu skylt, að menn vátryggi hús sín í sveitum fyrir bruna, en byggingar í sveitum eru nú einu sinni þannig gerðar, að þær eru margar hverjar ekkí mikils virði, þegar meta á þær til brunabóta. Tökum t.d. torfbæi. Matið á þeim er oft ekki nema nokkur hundruð kr. Og ef á að byggja slíka bæi upp, þá er féð, sem fæst til þess, svo lítið, að oft er ómögulegt að byggja upp með ekki hærri styrk. Þegar svo við það bætist, að menn missa lausafé sitt, heybirgðir og annað, getur það hæglega orðið til þess, að menn lendi á vonarvöl. Það er hægt að segja, að þeir eigi að vátryggja, en af því að húsin eru svo lágt metin, getur það orðið hverfandi lítið, sem þeir fá fyrir það. Hitt trassa margir, að tryggja lausafé sitt fyrir bruna. En það tel ég ekki leið, er eigi að fara, að hrekja mann í burtu frá bæ sínum, sem orðið hefur fyrir því óláni að missa eigur sínar í eldsvoða, heldur beri að hlaupa undir bagga með honum, svo að hann geti byggt bæ sinn að nýju. Ég skal í sambandi við þetta geta þess, sem að vísu kemur glöggt fram í frv., að það er ekki ætlazt til þess, að nýbýlastjórn ráði þessu, heldur ríkisstj., ef slíkar styrkveitingar yrðu veittar. Einnig vil ég geta þess, að frá ríkisstj. hefur það komið fram, að hún teldi eðlilegt að slíkar undanþágur, sem hér um ræðir, væru veittar á þessum tímum, þegar brunabótafé það, sem fæst í þessum tilfellum, er svo hverfandi lítið af þeim byggingarkostnaði, sem verður, ef á að endurbyggja.

Þetta vildi ég taka fram sem ástæðu fyrir því, að þetta nýmæli hefur verið sett inn í l. um byggingar- og landnámssjóð, eða þann kafla þeirra, sem fjallar um nýbyggingarstyrki. Annað viðvíkjandi þessu sé ég ekki ástæðu til að taka fram að sinni. Ég skýrði það nokkuð við 1. umr. málsins. En ég vil þó aðeins geta þess út af ábendingu, sem kom fram við 1. umr. frá hv. 1. þm. Rang., að teknir yrðu til athugunar endurbyggingarstyrkir þeirra manna, sem eru í leiguábúð. Ég lofaði, að n. skyldi athuga þetta atriði, og það hefur verið gert, en n. var ekki ásátt um að gera breyt. á frv. frá því, sem nú er. Ég vil líka geta þess, að það er tryggt samkv. þessum l., eins og þau eru nú, að allar jarðir, hvort sem það eru ríkissjóðsjarðir, jarðir hreppsfélaga eða hvers konar opinberar jarðir, falla algerlega undir ákvæði þessara l. um endurbyggingarstyrki, svo að ábúendur þessara jarða eiga rétt á þeim, hvort sem þær eru leigðar í erfðaábúð, með óðalsrétti eða á venjulegan hátt. Og í öðru lagi er í ábúðarl. frá 1933 bráðabirgðaákvæði, sem heimilar á sínum tíma að veita styrki til jarða, sem eru í leiguábúð, og ég held, að svo sé litið á af nýbýlastj., að heimilt sé að veita styrki til allra, sem eru í eldri ábúð en það. Hins vegar er það svo á þessum umrótstímum, þegar jarðir ganga í miklu braski, að það er mjög varhugavert, að allir, sem hafa leiguábúð á jörðum einstakra manna, hafi endurbyggingarstyrk. En öðru máli gegnir aftur á móti um þá, sem eru í sjálfsábúð og á jörðum í opinberri eign. Þess vegna höfum við ekki séð okkur fært að koma fram með brtt. viðvíkjandi þessu, og ég vil vona, að hv. þm. geri sig ánægðan með þær skýringar, sem ég hef komið með.

Ég sé svo ekki ástæðu til, að svo komnu máli, að hafa fleiri orð um þetta.