05.05.1942
Efri deild: 49. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Landbn. gerði brtt. um, að síðari málsgr. 3. tölul. frv. félli niður, og er þessi brtt. hér til umr. sem síðari tölul. þskj. nr. 297. Þessi tölul. brtt. var tekinn aftur við 2. umr. til 3. umr. Við tökum nú þessa brtt. aftur að fullu (brtt. 297,2.a.). En í fyrri málsgr. 3. tölul. er svo til tekið, að skilyrði fyrir byggingarstyrk sé m.a. það, að fasteignamat bæjarhúsa sé ekki yfir 3000 kr. Þegar við í landbn. lögðum það til, þá var það af því, að okkur er ljóst, að ákaflega mikill hluti af jörðum er enn þá með svo fram úr skarandi lélegum byggingum, að þær eru ekki metnar nema á fá hundruð og það allt niður í 100 kr. Og við töldum, að þeir, sem eru á jörðum, sem svo er ástatt um, ættu að ganga fyrir um að fá endurbyggingarstyrk, og þess vegna væri ekki rétt að láta endurbyggingarstyrkinn, ef matsverðið á bæjarhúsunum væri þarna yfir. Hins vegar hefur verið upplýst, hvað fyrir nýbýlastj. vakir með flutningi frv., að til eru nokkrar jarðir, þar sem byrjað hefur verið að byggja, en ekki hefur verið hægt að ljúka við endurbygginguna vegna fátæktar hlutaðeigenda. Það hefur verið byrjað að byggja vönduð steinhús, en ekki hefur verið hægt að fullgera þau svo, af þeim ástæðum, sem ég nefndi, að þau væru í raun og veru íbúðarhæf, enda þótt búið hafi verið í þeim. En þau hafa þó verið metin yfir 3000 kr. Þess vegna er útilokað, að þessir menn geti fengið endurbyggingarstyrk til þess að ljúka við hús sín nema með því móti, að þeim sé rétt hjálparhönd. Og það er til. þess að koma á móti þessum mönnum, að nýbýlastj. vill fá heimild til þess, þegar sérstaklega stendur á, að víkja frá þessu ákvæði um, að matið megi ekki vera yfir 3000 kr. á íbúðarhúsum á viðkomandi jörðum. Við látum nú þessa heimild halda sér í brtt. 308, og er hún því skilyrði bundin undantekningarlaust, samkv. þeirri brtt., að samþykki ráðh. þurfi til þess, í hvert skipti, að víkja frá ákvæðinu viðkomandi matinu, sem ég nefndi.

Nú er búið að fullnægja þeim beiðnum um endurbyggingarstyrki, sem fyrir hafa legið, vegna þess að nú um tíma hefur ekki verið byggt,. svo að neinu nemi. En þegar raknar fram úr í þeim efnum, er mest þörfin á að byggja upp á þeim jörðum, sem verst eru hýstar.