07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

37. mál, byggingar og landnámssjóður

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hef leyft mér að koma hér með brtt. við þetta frv., og liggur hún nú hér fyrir á þskj. 331, og er hún við síðasta hluta 3. málsl. 2. gr. frv., og segir svo í þessum 3. málsl. 2. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Aldrei má þó framlag samkv. þessari gr. vera meira en 1/3 af kostnaðarverði hússins. En ég legg til, að þarna komi á eftir: „nema alveg sérstaklega standi á og ráðh. veiti samþykki sitt í hvert skipti, og þó ekki lengur en byggingarkostnaður er meira en þrefaldur, miðað við 1939.“

Ég hef athugað það, að þó að hæstv. Alþ. verði við því að greiða 1/3 af kostnaðarverði húsanna, þar sem verður að byggja. upp á bæjum eftir bruna eða vegna þess, að hús hafa fallið, þá er það þannig, að það eru engar líkur til þess, að svo að segja nokkur bóndi geti byggt upp á jörð sinni, eins og nú standa sakir. Og get ég í því sambandi tekið einfalt dæmi:

Nú er byggingarkostnaður meira en þrefaldur og nærri ferfaldur á við það, sem var fyrir stríð. Sement er nú í ferföldu verði á við það, sem var fyrir stríð, og hygg ég, að ekki muni minna á timbri. Og svo er með annað byggingarefni. Ég er kunnugur því í einu tilfelli, þar sem hús brann á sveitabæ og líka útihús. Húsið var tryggt fyrir 2700 kr. Í þessu tilfelli er um það að ræða, hvort hjónin, sem þarna búa, flytji burt af jörðinni eða að reynt verði að hlaupa undir baggann með þeim um að byggja. Og það hefur verið athugað, að mjög lítið hús, sem væri byggt þarna þannig, að hægt væri að byggja við það síðar, mundi hafa kostað 5–6 þús. kr. fyrir stríð. En nú er ómögulegt að koma því upp fyrir minna en 18–20 þús. kr. Og ef um 18 þús. kr. kostnað við slíka byggingu er að ræða og bóndinn fær 1/3 hluta kostnaðarins greiddan sem styrk og um 3 þús. kr. sem brunabætur, þá þarf hann að borga sjálfur 9 þús. kr. til þess að byggja þó svona ófullnægjandi lítið með það fyrir augum að byggja við það síðar. Og það er algerlega útilokað, þó að þetta dæmi sé tekið, sem verður að telja fremur hagkvæmt eftir öðru, sem um væri að gera nú á tímum, að nokkur bóndi geti lagt út upp undir 10 þús. kr. til þess að byggja. Það væri ekkert vit í því að ofhlaða jörðina svo. Og það er gert allt of mikið að því í íslenzkum landbúnaði að ofhlaða jarðir með lánum. Landbúnaðurinn íslenzki er ekki arðbærari heldur en það, að á honum er aldrei neinn stórgróði. Og það er yfirleitt ómögulegt fyrir nokkurn mann að byggja nú nema fyrir stórkostlegan stríðsgróða, — alls ekki hægt. Þess vegna legg ég til, að undir einstökum kringumstæðum verði gefnar undanþágur frá þessu ákvæði, að framlagið skuli ekki nema meiru en 1/3 byggingarkostnaðar, samkv. því, sem ég hef tekið fram, sem mundi þó að sjálfsögðu vera framkvæmt þannig, að öll nýbýlastj., sem gerir till. um þessi mál, yrði sammála um þetta, vegna þess að undir öðrum kringumstæðum mundi ráðh. aldrei samþ., að vikið yrði frá meginreglunni, sem sett er í frv. um hámark þessara styrkja. En ef engin undanþága er gefin frá þessari reglu, að ríkið greiði aldrei meira en 1, af kostnaðarverði húsa, sem reist eru eftir þessum l., þá er það í mörgum tilfellum útilokað, að þeim bændum, sem hafa orðið fyrir því, að brunnið hafa hús ofan af þeim eða þau hafa fallið fyrir það, hvað þau hafa verið orðin léleg, — þá er útilokað, að þeim bændum komi að haldi ákvæði þau, sem felast í þessu frv. um endurbyggingarstyrk. Þeir verða að yfirgefa jarðirnar, ef ekki verður hlaupið undir bagga með þeim.

Ég mun svo ekki eyða fleiri orðum um þessa brtt., nema sérstakt tilefni gefist til. Ég hygg, að allir hv. þdm. muni álíta þessa breyt. á frv. eðlilega og sanngjarna, eins og á stendur.