07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

43. mál, húsaleiga

*Brynjólfur Bjarnason:

Það er vitanlega rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að mikið ranglæti felst í þessum l. og framkvæmd þeirra, þó að allir hljóti að skilja, að l. eru bráðnauðsynleg. Hitt er rétt, að ranglæti er mikið í framkvæmd þeirra. T.d. er fólk varnarlaust fyrir úrskurðum húsaleigunefndar, og fæst þar engin leiðrétting á. Hins vegar liggur það í augum uppi, að ef niður yrði fellt ákvæðið um, að húseigendum væri óheimilt að segja leigutaka upp húsnæðinu, ef hann hefði ekki eignazt húsið fyrir gildistöku l., að þá mundi ranglæti l. verða stórum meira. Annars finnst mér það nú ekki ofverk ríkisstj. að sjá opinberum starfsmönnum fyrir húsnæði, með því að reisa yfir þá hús, ef þess væri þörf, þar sem þeir starfa. En ef þetta á að verða að ráði, að starfsmenn hins opinbera geti keypt sér hús og rekið fólk út úr þeim, verður að velja opinbera starfsmenn með það fyrir augum, að þeir séu svo efnaðir, að þeir geti keypt sér hús.

Að öllu athuguðu finnst mér fráleitt, að þessar breyt. séu samþykktar.