11.05.1942
Efri deild: 54. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

43. mál, húsaleiga

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. S.- M. hefur ekki heyrt ræðu mína alla. Ég neitaði því alls ekki, að til væru staðir, sem mundu ekki hafa þörf fyrir þessa löggjöf. En dæmið, sem hann talar mest um, frá Nesi í Norðfirði, sannar einmitt, að þar eru mikil húsnæðisvandræði og brýn þörf á l., — ekkert sýnir, að þar sé hún minni en í Reykjavík. En um allan þann, fjölda staða, sem brtt. hans nær til, skortir upplýsingar, svo að ekki kemur til greina að samþ. hana að svo komnu máli. Upplýsingar, sem hann telur hafa skort frá þeim stöðum, þegar l. voru sett, liggja ekkert fremur fyrir nú. Hví var þessum hv. þm. það ekki ljóst þá þegar; að ekki var þörf á þessari löggjöf á stöðum með færri en 2 þús. íbúa? Hann segir e.t.v., að enginn þurfi að vera húsnæðislaus, ef honum stendur opið að byggja yfir sig. En þannig er það jafnt í Reykjavík sem kaupstöðunum, og málið er ekki leyst með því. Ég benti á í ræðu minni áðan, að ef kaupstaðirnir kringum land teldu sig ekki þurfa á þessari löggjöf að halda, mundu þeir láta heyra frá sér um það, og berist Alþingi raddir um það víða að, verður þetta undir eins tekið til athugunar.