15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

18. mál, stimpilgjald

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Brtt. frá hv. 11. landsk. kom fram eftir að n. hafði skilað álíti og svo nærri 2. umr., að n. vannst ekki tími til að líta á þær. Ég heyrði það á ræðu hv. meðnm. míns, að hann hafði komizt að sömu niðurstöðu og ég, hvað þessar brtt. snertir. Við nána athugun sá ég mér ekki fært að vera þeim fylgjandi. En ég sé vel bæði kosti þeirra og galla, en mér virðist kostirnir minni en gallarnir. Ég veit, að hv. flm. er þetta ljóst eftir ræðu hans að dæma. Megingallinn á þessum brtt. er sá, að hér er vikið út af þeim grundvelli, sem lagður var með stimpilgjaldslögunum. Í öðru lagi er þetta allt of stirt fyrirkomulag að gera engan greinarmun á mismunandi stöðum á landinu, og í þriðja lagi er hér miðað við óvenjulegt ástand, enda mun vera stirt í vöfunum að fá því breytt aftur í hlutfalli við verðlagið. Brtt. taka ekki heldur tillit til þess núverandi ástands, að fasteignir eru seldar sums staðar fyrir miklu hærra verð heldur en fasteignamatið er. Ef ríkissjóður á að ná í rétt stimpilgjald af þessum eignum, gefur frv. sjálft meiri möguleika til þess. Ég veit dæmi til þess, að borgað hefur verið miklu meira en tvöfalt stimpilgjald eftir þessari brtt. Ég er viss um, að margir gefa upp rétt söluverð og borga tilskilið stimpilgjald. Ef brtt. verða samþ., mundi ekki fást jafnmikið stimpilgjald inn í ríkissjóðinn, þar eð allir, sem kaupa fyrir margfalt fasteignamat og gefa upp rétt verð, þurfa ekki að greiða stimpilgjald nema af fateignamatsverðinu. Þetta tel ég megingallann á brtt. Frv. hefur aftur á móti ýmsa kosti til að bera. Þar er haldið grundvelli laganna og stimpilgjald miðað við kaupverð, en það er hins vegar miklu viðtækara og sveigjanlegra heldur en lögin. Ef fasteign selst lítið fram yfir fasteignamat, þá er goldið af því, en ef hún selst t.d. fyrir tífalt fasteignamatsverð, þá skal borga stimpilgjald af þeirri upphæð. Ég er viss um, að flestir innheimtumenn stimpilgjalda eru ekki þeir álfar út úr hól, að þeir viti ekki nokkurn veginn gangverð fasteigna hver á sínum stað, og það er hrein embættisvanræksla, ef ekki er borgað tvöfalt stimpilgjald, miðað við fasteignamatsverð, af hverri fasteign, sem seld er hér í Rvík.

Ég sé mér því ekki fært annað en að standa við fyrri afstöðu n. um það að fylgja þessu frv. eins og það er óbreytt.