03.03.1942
Neðri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

15. mál, málflytjendur

*Flm. (Bergur Jónsson):

Í fyrra dagaði uppi á þ. frv. til l. um breyt. á hæstaréttarl. Var þar m.a. sett fram hin gamla krafa, að I. einkunn á lögfræðiprófi sé ekki gerð að skilyrði fyrir leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti. Ég hef nú borið fram frv. um þetta og önnur atriði, er málflutning varða. Í frv. eru dregin saman þau ákvæði, sem ætlazt er til, að gildi um málflytjendur. Áður voru þessi ákvæði á þremur stöðum í l.

Mesta breyt. frá eldri l. er fólgin í því, að samkv. frv. er I. einkunn við embættispróf nú ekki lengur skilyrði fyrir því, að menn geti flutt mál fyrir hæstarétti. Það hefur nokkuð oft verið lagt fyrir Alþ. frv. um þessa breyt. Ég tel það mjög sanngjarnt að fella burt þetta skilyrði, því að það er engin víssa fyrir því, að maður sé hæfari til málflutnings, þó að hann hafi fengið I. einkunn. Það er margt, sem til greina kemur við próf, og það getur stafað af einskærri óheppni, að maður fær ekki I. einkunn, og væri hart að þurfa að ganga undir próf aftur, ef hann vill flytja mál fyrir hæstarétti.

Það hefur verið haldið ákvæðinu um málflutningspróf. Ég vil benda á, að slík próf eru fyrirskipuð í Englandi og Frakklandi, og í Frakklandi er auk þess heimtað meira málflutningspróf fyrir hæstaréttarlögmenn.

Aldurstakmark þeirra, sem flytja mega mál fyrir hæstarétti, er hækkað upp í 30 ár úr 25. Lögfræðingur sá, sem vill fá leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti, verður og að hafa sýnt það með flutningi 4 mála, og sé að minnsta kosti eitt þeirra opinbert mál, að hann sé að dómi hæstaréttar hæfur til að vera hæstaréttarlögmaður, en undanþegnir þessu skilyrði eru menn, sem hafa verið hæstaréttardómarar, prófessorar í lögum eða dómsmálaráðherrar.

Þá eru í frv. fyllri ákvæði en áður voru til um félagsskap málflutningsmanna.

Að öðru leyti vil ég vísa til grg. og leggja til, að málinu verði vísað til allshn.