07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

15. mál, málflytjendur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hef flutt brtt. á þskj. 113 við þetta frv., þar sem ég geri það að till. minni, að lögfræðikandidatar verði, til þess að þeir geti orðið hæstaréttarmálaflutningsmenn, að hafa fengið I. einkunn við próf frá Háskóla Íslands. Þetta skilyrði hefur alltaf verið í l., og ég veit ekki betur en að hæstiréttur og lagadeild hafi. mælt með því eindregið, að þetta skilyrði yrði ekki fellt niður, þegar till. hafa komið fram um það hér á þingi. Ég hygg líka, að það sé enginn vafi, að yfirleitt séu þeir lögfræðikandidatar eins og aðrir kandidatar betur að sér, sem fá 1. einkunn en hinir, sem fá ekki nema 2. einkunn, þó að það sé vitanlegt, að ýmsir, sem hafa fengið 2. einkunn, geti orðið góðir lögfræðingar. Ég vil benda á, að síðan þetta var sett sem skilyrði, hefur meginþorri allra lögfræðikandidata fengið 1. einkunn, af því að þeir viti, að hún gefur aukin réttindi í þjófélaginu, og hafa þeir því lagt að sér við námið til þess að hljóta hana. Þetta ákvæði hefur því orðið til þess, að menn hafa lesið betur, og hygg ég, að löggjafinn eigi ekki að draga úr, að menn lesi sem bezt undir embættispróf sín. Ég vil einnig benda á, að læknum er einnig sett það skilyrði, til þess að þeir geti öðlazt sérfræðiréttindi, að þeir hafi fengið 1. einkunn.

Ég hygg, að engin skynsamleg ástæða mæli með því að fella burt það lagaákvæði, sem heimtar, að kandidatar fái 1. einkunn eigi þeir að geta orðið hæstaréttarmálaflutningsmenn og draga þar með úr þeirri örvun, sem er því samfara að vita, að þessari skyldu fylgja aukin réttindi. Það er sama, frá hvaða skóla menn koma, þá er alltaf spurt um prófið, ef menn sækja um einhverja stöðu. Þetta skilyrði er því til að hvetja menn til að stunda nám sitt samvizkusamlega, og fer vel á því.

Ég vil því vona, að þessi till. verði samþ.