07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

15. mál, málflytjendur

*Garðar Þorsteinsson:

Mér virtist hv. þm. Barð. aðallega byggja ræðu sína á því, að svo margir lögfræðingar, sem hefðu gengið með 2. einkunn frá prófborði, hefðu sýnt sig að vera nýtir lögfræðingar. Ég skal ekki neita því, en það breytir engu um það, að það eru alltaf meiri líkur til að þeir reynist vel, sem taka góð próf. Alveg er það eins með læknana. Menn geta orðið góðir læknar, þó að þeir gangi með 2. einkunn frá prófborði, en samt er 1. einkunn gerð að skilyrði fyrir því, að þeir geti öðlazt sérréttindi, og er sú vísindagrein ekki hvað ábyrgðarminnst. (BJ: Það er ekki í l.) Það er í reglugerð, sem er samin af landlækni og heilbrigðismálaráðuneytinu, og ég geri ráð fyrir, að þeir aðilar hafi eins vel vit á því eins og Alþ. á þessu atriði. Ég geri ráð fyrir, að landlæknir hafi ekki sett þetta atriði í reglugerð, sem fara á eftir, ef hann teldi það ekki réttlátt. Þetta er það, sem þeir hafa fengið út, að réttast væri að fara eftir, þó að til kunni að vera ýmsar þær undantekningar, að 2. einkunnar menn geti reynzt nýtir í starfi sínu, og ég hef alltaf haldið, að fara ætti eftir því, sem algengast er, en ekki undantekningum.

Hv. þm. Barð veit vel, að til þess að komast inn í háskólann er ekki sett neitt skilyrði nema að hafa tekið stúdentspróf. Stúdent með ágætiseinkunn hefur þar ekki meiri réttindi en sá, sem hefur 2. einkunn. Heldur hv. þm. Barð. ekki, að það mundi hafa áhrif, ef heimtuð væri einhver ákveðin einkunn við stúdentspróf til að mega komast inn í háskólann ? Mundu menn þá ekki leggja að sér við námið til þess að reyna að fá þá einkunn, sem gæfi þessi auknu réttindi? Alveg það sama er með þá, sem ganga undir kandidatspróf. Ef þeir vita, að 1. einkunn veitir aukin réttindi, reyna þeir að lesa sem bezt til þess að fá 1. einkunn. Það getur verið, að í einstökum tilfellum sé það vegna óheppni, að menn ná ekki 1. einkunn, en slík atvik eru aðeins undantekningar, sem verða að víkja fyrir aðalreglunni. Hv. þm. veit, að við umsóknir er um það spurt, hvaða einkunnir menn hafi, frá hvaða skóla sem menn eru. Það eru alltaf meðmæli með manni, að hann hafi fengið 1. einkunn, og háskólinn hefur alltaf sett það fram sem sína skoðun, að kandidatar eigi að hafa 1. einkunn, eigi þeir að öðlast réttindi til að flytja mál fyrir hæstarétti, og ég er alveg sannfærður um, að þeir, sem fá háa einkunn frá háskólanum, eru yfirleitt færari í sínu fagi en þeir, sem fara þaðan með lélega einkunn. Prófessorarnir gefa ekki einkunnir einungis eftir frammistöðu í sjálfu prófinu, heldur og líka eftir því, sem þeir, eftir að hafa kynnzt nemendunum, vita, að þeir hafa þekkingu til. Það er í rauninni alveg áskiljanlegt, ef Alþingi á nú að slaka á kröfunni um 1. einkunn, eftir að hafa stutt og eflt sem bezta menntun á öllum sviðum. Það hefur stuðlað að því, að fjöldi skóla hefur verið reistur, það hefur styrkt íslenzka námsmenn til utanfara, til þess að þeir gætu aflað sér sem beztrar menntunar, og svo á Alþ. að fella niður þá kröfu, að nemendurnir stundi nám sitt vel og leggi rækt við það. Hitt er sönnu nær, að það er lægsta krafa, sem Alþ. getur gert, að nemendurnir stundi nám sitt svo vel, að þeir hljóti 1. einkunn, en það er aldrei hægt að ganga fram hjá því, að einkunn kandidatsins gefur gleggsta hugmynd um þekkingu hans á faginu.