05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Þetta frv. var flutt á aukaþinginu s.l. haust af nokkrum hv. þm. úr Framsfl. N., sem hafði málið þá til meðferðar, hafði ekki skilað áliti, þegar því þingi lauk. Við töldum því rétt að flytja frv. á ný. Á haustþinginu fylgdi frv. allýtarleg grg., sem við flm. höfum nú leyft okkur að vísa til um efni frv. Í raun og veru eru í þeirri grg. færð fram í öllum atriðum rökin, sem liggja að flutningi þessa máls, og má jafnvel segja, að sá tími, sem liðinn er síðan frv. var flutt í haust, hafi sýnt það enn betur en það var séð áður, hve mikil þörf er á aðgerðum í þessa átt.

Tilgangurinn með þessu frv. er að skapa ríkissjóði nokkurs konar varasjóð, sem hægt sé að grípa til til stuðnings atvinnuvegunum og til verklegra framkvæmda í landinu, þegar brýnust þörf verður til. Saga síðustu ára hefur sannað það greinilega, hve mikil þörf er á slíku. Síðustu árin fyrir styrjöldina var að vísu varið verulegum upphæðum til verklegra framkvæmda og stuðnings atvinnuvegunum og það óvenjulega háum upphæðum. En hitt er víst, að þá hefði verið þörf á enn frekari aðgerðum í þeim efnum. Ef ríkissjóður hefði þá þegar haft rýmri fjárhag, þá hefði áreiðanlega verið svo séð um atvinnuvegina og verklegar framkvæmdir í landinu, að ekkert atvinnuleysi hefði orðið hér á landi, sem þá var þó allmikið áberandi, a.m.k. vissa tíma ársins. Það er kannske enginn svo bjartsýnn að álíta, að það peningaflóð, sem nú flæðir yfir landið og borgararnir yfirleitt hafa talsvert af að segja og ríkissjóður að einhverju leyti, muni vara til lengdar. Það er víst, að það kreppir að fyrr en varir. Og þegar svo er komið, er þörf á, að til sé einhver varasjóður, sem hægt sé að grípa til í þessu skyni, sem ég hef tekið fram. Það er þetta, sem fyrst og fremst liggur til grundvallar því, að þetta frv. er flutt hér nú. Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að tekjur til þessara hluta fáist á þann hátt, að hlutar uf tekjuafgangi á rekstrarreikningi ríkissjóðs verði lagðir til hliðar í þennan sjóð, sem við nefnum framkvæmdasjóð ríkisins. Hve stór þessi upphæð verður, er enn ekki sýnt. Það er enn ekki búið að leggja fram skýrslu um afkomu ríkissjóðs fyrir siðasta ár. En við fim. frv. um þetta efni á haustþinginu síðasta höfðum gert rá: fyrir, að þessir 3/5 hlutar af tekjuafganginum, sem við þá lögðum til að yrði varið eins og í þessu frv. getur, mundu sennilega ekki verða minna en 6 millj. kr., og ég hef fulla ástæðu til að ætla, að sú áætlun muni ekki bresta, en að það séu fremur líkur til, að þessi upphæð verði heldur meiri en við þá gerðum ráð fyrir, þó að ég vilji ekki fullyrða það. Og viðvíkjandi tekjuafgangi ríkissjóðs á yfirstandandi ári er í þessu frv. gert ráð fyrir, að sömu aðferð verði beitt. Á þennan hátt ætti á þessum tveimur árum að vera hægt í þessu skyni, sem í frv. getur, að leggja fram um 12 millj. kr. Vitanlega er öllum hulið, hver rekstrarafkoma ríkissjóðs verður á yfirstandandi ári. En vonir standa þó til þess, að afkoman ætti að vera tiltölulega sæmileg þetta ár.

Ég vil geta þess, að það gæti komið til álita, hvort ekki væri rétt, að ákvæði um tekjur í þennan framkvæmdasjóð nái lengra en til yfirstandandi árs, t.d. til ársins 1943, þó að vitanlega sé enn þá í langmestri óvissu, hvernig fjárhagsafkoma ríkissjóðs verður það ár. Og við flm. frv. sáum ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að fara að setja inn í frv. ákvæði um tekjuöflun á þeim grundvelli. En við álítum, að það sé ástæða fyrir n., sem málið fer til, að athuga þetta atriði og e.t.v. að setja einhver ákvæði varðandi árið 1943 um tekjuöflun í þessu skyni. Það skal að vísu viðurkennt, að eins og nú er háttað með peningaeign í landinu og þegar gengi okkar myntar er lágt eins og nú, þá er ekkí um tiltölulega mjög stóra upphæð að ræða, þó að nefndar séu 12 millj. kr. og jafnvel þó að það væri nokkru stærri fjárhæð, en það er þó skildingur, sem áreiðanlega væri gott að geta gripið til til ýmiss konar framkvæmda, þegar harðara verður í ári, bæði fyrir vinnuveitendum í landinu og verkafólki, heldur en nú er sem stendur.

Um verkefni þessa framkvæmdasjóðs í einstökum atriðum er mjög lítið tekið fram hér í þessu frv., enda er ekki ástæða til þess, þar sem svo er frá gengið, að ætlazt er til, að Alþ. sjálft hafi fjárveitingarvald yfir þessum sjóði, eins og ríkissjóði sjálfum, þó að hins vegar sé gert ráð fyrir, að sérstök n. geri till. um, hvernig þessu fé skuli varið. Í grg. fyrir frv. um þetta efni frá í haust var lítilsháttar minnzt á þau verkefni, sem fyrir lægju til framkvæmda með þessum sjóði, ám þess þó að um nokkra tæmandi upptalningu væri, þar að ræða, enda ekki eðlilegt, að svo væri. En þar voru nefnd ýmis verkefni, eins og myndanir nýrra heimila, bæði í sveit og við sjó, eins ýmsar stærri framkvæmdir, svo sem verksmiðjubyggingar í þarfir landbúnaðarins og sjávarútvegsins og fleiri atvinnuvega. Sömuleiðis hafnargerðir, vegagerðir og fleira. Ég vil aðeins bæta við einu verkefni, sem við flm. frv. teljum, að sé kannske aðkallandi fremur en margt annað, að verði leyst á viðunandi hátt, og það er að koma rafmagninu með einhverjum ráðum út um dreifbýli landsins, þannig að sem flest fólk í landinu og mögulegt er, verði aðnjótandi þæginda þess og hagnaðar. Það kemur æ betur og betur í ljós, hve rafmagnið er nauðsynlegt afl, hvar sem er og við hvaða atvinnurekstur og hvaða aðstæður sem eru, að fram hjá því verður ekki gengið, að leitast verður við að koma því til sem allra flestra landsmanna á tiltölulega stuttum tíma. Og hlutverk sjóðs eins og þessa hlyti því að verða meðal annars það, að vinna að framkvæmdum í þá átt. Ég nefni þetta atriði nú sérstaklega af því, að á það var ekkert minnzt, þegar frv. þetta var flutt í haust, sem eingöngu stafaði af gleymsku.

Að svo stöddu sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. á því stigi, sem málið er. Bæði er það, að sú grg., sem fylgdi frv. á haustþinginu í haust, liggur fyrir, þótt ekki hafi hún verið prentuð upp nú, og hafa allir hv. alþm. aðgang að því að kynna sér hana, og að hinu leytinu lít ég svo á, að heppilegast sé, að þetta frv. fái gaumgæfilega athugun í n. Og við flm. frv. erum mjög fúsir til að taka til athugunar till. um breyt. á frv.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og til fjhn.