05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Pétur Ottesen:

Ég býst við, að hv. þdm. og aðrir hafi veitt því athygli, að hæstv. ríkisstjóri gat þess í þeim boðskap, sem hann flutti frá ríkisstj. við setningu Alþ.,ríkisstj. hygðist að leggja fyrir fé í sjóð af tekjum ríkisins, til þess sérstaklega að hamla með því fé upp á móti þeim örðugleikum, sem gera mætti ráð fyrir, að mættu okkur að ófriðnum loknum, og þá vitanlega með þeim hætti að gera ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir, til þess að ekki verði allt of mikil röskun í þjóðfélaginu. Ég geri ráð fyrir því, að þessi sjóðmyndun, sem hæstv. ríkisstjóri talaði um í sínum boðskap, sem hann flutti fyrir ríkisstj., hafi verið hugsuð þannig, að ráðstafa skyldi í þessu skyni einhverjum hluta þess fjár, sem afgangs yrði af tekjum ríkissjóðs á s.l. ári, og auk þess tekjuafgangi yfirstandandi árs, miðað við núverandi fjárl., auk þess. fjár, sem kynni að verða aflað í þessu skyni með nýjum sköttum, er lagðir yrðu á á þessu þingi. Og í framhaldi af því hef ég búizt við, eftir þessari yfirlýsingu og því, sem vitað er, að ríkissj. hefur haft á prjónunum, þá kæmu fram sameiginlegar till. frá ríkisstj. snertandi ráðstöfun og fyrirkomulag á þessum sjóði, sem þannig yrði byggður upp. Mér þykir þetta því horfa dálitið einkennilega við, að menn úr öðrum stuðningsflokki stjórnarinnar skuli nú hafa hlaupið þannig fram fyrir skjöldu og tekið mál þetta upp og borið það fram án þess að hafa haft um það nokkur samráð við hinn aðilann. Og því undarlegra virðist mér þetta vera, þar sem aðeins einn af fjórum hæstv. ráðh., sem að þessum boðskap ríkisstjóra standa, er á þessu frv. sem flm. Það er að vísu rétt, að frv. svipað þessu kom fram á síðasta aukaþingi, sem haldið var, en þá hafði ríkisstj. ekki heldur tekið neina sameiginlega afstöðu, eins og hún hefur nú gert um það að stofna til slíkrar sjóðmyndunar sem þessarar. Á aukaþinginu komu fram, í sambandi við umr. um dýrtíðarmálið, ýmsar ráðagerðir í þessa átt, bæði frá þeim, sem að þessu frv. standa nú, ag öðrum. Og m.a. benti ég þá á í umr. um dýrtíðarmálið, að ég teldi miklu hyggilegar ráðið að leggja fé til hliðar, sem hægt væri að grípa til að stríðinu loknu, heldur en að verja stórum fjárhæðum úr ríkissjóði í þeim hæpna tilgangi að ætla með þeim hætti að halda niðri dýrtíðinni í landinu. Ég vildi láta þessa getið hér, og að mér þykir dálítið undarlegt, að einmitt till. um þetta samkvæmt þeim boðskap, sem hæstv. ríkisstjóri flutti í nafni ríkisstj., skuli ekki hafa komið fram frá hæstv. ríkisstj. sjálfri. Mér hefði fundizt það miklu eðlilegra, því að vitanlega verður þetta í framkvæmdinni að koma með aðstoð beggja þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa. Og ég geri ekki heldur ráð fyrir, að ríkisstj. mætti neinni andstöðu í flokkum þeim, sem að henni standa, gegn þeirri hugmynd sinni að stofna slíkan sjóð, heldur verði alls staðar litið á sjóðmyndun þessa sem mjög skynsamlega og hyggilega ráðstöfun. Þó að þetta frv. sé nú komið fram í nokkru ósamræmi við boðskap ríkisstjóra, þann sem hann flutti fyrir ríkisstj. hönd, þá vitanlega kemur ekki til mála, að það verði þröskuldur í vegi fyrir því, að þetta mál verði, samkvæmt þessum tilkynnta boðskap ríkisstjóra, framkvæmt og samstarf verði um það innan stjórnarflokkanna, því að það er að mínum dómi sú ráðstöfun, sem í þessu efni er langsamlega líklegust til góðs árangurs og heppilegrar úrlausnar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en vildi aðeins láta þetta koma hér fram í sambandi við framkomu þessa frv. og boðskap hæstv. ríkisstjóra fyrir hönd ríkisstjórnar.