05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Út af ummælum hv. þm. Borgf. verð ég aðeins að staðfesta það, að það er rétt, eins og hann gerði ráð fyrir, að áður en þingið kom saman, var innan ríkisstj. talað um, að ríkisstj. legði fram fyrir hæstv. Alþ. till. um að draga saman fé til þess að mæta þeim örðugleikum, sem öllum er ljóst, að fram undan bíða okkar, þegar útfallið byrjar, eftir þá öldu atvinnu og peninga, sem nú ríður yfir. Hins vegar hefur ríkisstj. ekki enn þá gengið endanlega frá því og ekki tekið endanlega afstöðu um það, hvort þetta fé eigi að leggjast í sérstakan sjóð eða það eigi að vera handbært fé í ríkissjóði sjálfum, og skiptir það kannske ekki mestu máli. Aðalmálið er, að ríkisstj. er öll sammála um, að nauður reki til þess, að dregin sé saman veruleg fjárfúlga til þess að vera því víðbúinn, að ríkissjóði kunni að verða um megn að standa undir kostnaði af framkvæmdum verkefna sinna, þegar það fer saman, sem sýnt þykir að verða muni, að tekjur hans, sem nú eru, munu dragast saman, en nýjar kvaðir einnig lagðar honum á herðar. Í þessu skyni hefur ríkisstj. ákveðið að leggja fyrir. Alþ. till. um að þyngja mjög skatt, fyrst og fremst a stríðsgróða. Það verða fyrst og fremst þær tekjur, sem miðað er við. Það fé, sem inn kemur, á ekki að vera eyðslueyrir, heldur á að leggja það til hliðar vegna kreppunnar, sem framundan er.