05.03.1942
Neðri deild: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Haraldur Guðmundsson:

Ég er samþ. meginhugsun þessa frv. Við Alþfl.-menn fluttum á mörgum þ. frv. í þessa átt, um jöfnunarsjóð, og lögðum til, að tekjuafgangur væri lagður til hliðar. Ég er því að sjálfsögðu samþ., að sú hugsun verði framkvæmd, en þó með því fororði, að. ekki verði vanræktar þarfir líðandi stundar.

Ég skal ekki blanda mér í innanheimilismál stjórnarfl., hvort það er ósæmilegt háttarlag að flytja nú sérstakt frv. um þetta efni, þar sem hæstv. ríkisstjóri hefur gefið yfirlýsingu sína af hálfu ríkisstj. En það er lærdómsríkt að bera saman ummæli hæstv. forsrh. og hv. þm. Borgf. Ég tel eins og hæstv. ráðh., að full ástæða sé til að binda þann tekjuafgang, sem allir eru vissir um, að hljóti að safnast, við ákveðnar framkvæmdir. Hitt er annað mál, hvað á að sitja í fyrirrúmi.

Í sambandi við gefin fyrirheit um ráðstafanir til tekjuauka með háum sköttum, vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. Hvenær kemur unginn úr egginu? Fjárlfrv. var lagt fram í dag, og er skylt að þakka, að það er þó komið. Skattafrv. það, sem boðað er, væri æskilegt, að þm. fengju að sjá hið fyrsta. Ég vil ekki trúa því, að það é ætlunin að geyma það framyfir bæjarstjórnarkosningarnar. Vænti ég, að hæstv. ríkisstj. svari þessu.

Í sambandi við ummæli hæstv. forsrh. í lok síðustu ræðu sinnar um vaxandi erfiðleika á aðflutningum, vil ég spyrja, þó að hæstv. viðskmrh. sé ekki við, hvort það sé rétt, — að birgðir af helztu n,auðsynjavörum séu afarlitlar. Ég minnist þess, að hæstv. viðskmrh. gaf yfirlýsingu um það á aukaþ. í nóv., að til væru 6 mán. birgðir af öllum skömmtunarvörum, og væri það áform ríkisstj., að þær heldur ykjust en hitt, og mátti skilja það á hæstv. ráðh., að vonir væru til, að það mætti takast. En ef það er rétt, sem blöðin segja, þá hefur þetta ekki. lánazt. Hér er um mikið alvöruefni að ræða. Það verður ekki annað séð en að alltof miklu skiprúmi sé varið undir óþarft skran. Búðir hér eru fullar af einskisverðu glingri og skrani. Þessu máli þarf að gefa nákvæmar gætur.