06.05.1942
Neðri deild: 52. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

í nál. meiri hl. er þess getið, að þm. Seyðf. hafi að svo stöddu ekki verið viðbúinn að taka ákvörðun um málið. Þess er reyndar nokkuð getið; hver ástæðan sé, en hún er sú, að óafgreitt er í n. frv. um breyt. á gengisl. Ég vil auk þess geta þess, að ég hefði talið mikið fyllra að taka upp l. um jöfnunarsjóð frá 1932 og gera á þeim þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar. Ég benti einnig á það í n., að ef 2. gr. frv. yrði samþ. eins og hún væri, þá mundi það binda 6 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs á árinu 1942, án tillits til betra ársins, og nú hefur meiri hl. fallizt á, að þessu verði breytt þannig, að miðað verði við tekjuafgang ársins, hver sem hann verður. Ég er, eins og ég gat um við 1. umr., í höfuðatriðum sammála þeirri meginhugsun, sem í frv. felst, að fari tekjur ríkissjóðs svo stórkostlega fram úr áætlun sem reynslan hefur sýnt á s.l. ári, þá sé eðlilegt, að hæstv. Alþ. hafi meiri íhlutunarrétt um þetta fé heldur en verið hefur til þessa að öðru en því, sem segir í l. um jöfnunarsjóð. Ég hygg, að þegar slíkan hvalreka ber að höndum fyrir ríkissjóð, sem hér er um að ræða, þá sé eðlilegt, að hæstv. Alþ. taki ákvörðun um það, hvernig því yrði ráðstafað, en að það sé ekki í höndum stj. á sama hátt og verið hefur til þessa. Ég er sammála þeim þm., sem á það hafa drepið, að einmitt vegna styrjaldarinnar er það bersýnilegt, að opinberum framkvæmdum er ekki unnt að halda í sama horfi og verið hefur undanfarin ár. Það er ekki heldur heppilegt að ráðstafa vinnuaflinu í landinu á þann hátt, þegar nóg er annað að gera. Því álít ég, að allan tekjuafgang, sem af stríðinu hlýzt, beri að leggja til hliðar, til þess að hægt verði að auka framkvæmdir, þegar verr lætur í ári. Í þessu sambandi vil ég bera fram þá fyrirspurn til hv. flm., hvort þeir leggi ekki þann skilning í 1. gr., þar sem segir: „Hlutverk sjóðs þessa er að veita fé til nauðsynlegra framkvæmda í þarfir atvinnuveganna að styrjöldinni lokinni“, að þessu fé verði eingöngu varið til verklegra framkvæmda.

Að því er snertir það álit, sem fram hefur komið í umr., að það beri að nota tekjuafgang ríkissjóðs til þess að greiða upp erlendar skuldir, þá er ég ekki sammála þessu. Ég hygg, að ensku lánin 2 sem ógreidd eru og hægt væri að greiða eftir samningum, nemi 44–45 millj. kr.

Ég álít sjálfsagt, og flutti um það till. á síðasta þingi, að reynt sé að leysa þessi lán inn, en ég vil ekki slá því föstu, að það eigi að nota tekjuafgang landsins til þess að borga þau upp. Ég er sammála hv. þm. A.-Húnv. um það, að þegar þessari styrjöld lýkur, þá verði til nægilegt lánsfé innanlands, og þess vegna vil ég ekki leggja svo mikla áherzlu á það að borga upp erlendar skuldir, í stað þess vil ég láta verja því fé til nauðsynlegra framkvæmda fyrst eftir styrjöldina, og tel ég því eðlilegt, að stofnaður verði sérstakur sjóður í því skyni.

Ég mun greiða brtt. 295 atkv. mitt, og skal ég geta þess, að þessi upphæð, 10 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1941, er miðuð við það, að það sýni sig, að þetta Alþ. geri ráðstafanir, sem binda verulegan hluta af tekjuafgangi ársins 1942.

Eins og komið hefur fram í umr. um málið, þá mun það fara að sýna sig, hvort nota þarf tekjuafgang ársins 1941 til annarra ráðstafana, sem Alþ. teldi svo nauðsynlegar, að ekki yrði hægt að láta þær falla niður.