06.05.1942
Neðri deild: 52. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Út af þeirri fyrirspurn, sem fram kom um jöfnunarsjóð, þá skal ég láta þess getið, að í yfirlitinu um afkomu ársins 1941 lét ég þess getið, að í þessum sjóði væru 15 millj. kr., en ekki er svo að skilja, að það væri allt komið í sjóð, því að eins og hv. þm. vita, er þetta yfirlit að meira eða minna leyti byggt á áætlunum og þar með á áætlunum um það, hvað muni innheimtast í ríkissjóð af slíku fé.

Viðvíkjandi frv. sjálfu vil ég segja það, að ég álít það ekki skipta miklu máli, hvort það verður samþ. eða ekki, því að það, sem gert er með þessu frv., er ekkert annað en það, að Alþ. bindur sínar eigin hendur um það, hvernig skuli verja handbæru fé ríkissjóðs. Það er ekki einu sinni svo, að Alþ. sé með þessu að binda hendur stj., því að ég veit ekki betur en að hæstv. Alþ. hafi haft full umráð yfir fé ríkissjóðs hingað til.

Ég skal taka það fram, að ég er ekki eins sannfærður um það eins og hv. þm. A.- Húnv., að það beri að borga skuldir með tekjum ríkissjóðs, en það er hins vegar athugandi, hvort ekki er hægt að greiða erlendar skuldir með innanlandslánum. Hins vegar vil ég taka undir það með honum, að þegar mjög þröngt er um tekjur hjá ríkissjóði, þá mundi það hafa áhrif á það, hvað hægt væri að gera í þeim efnum.