06.05.1942
Neðri deild: 52. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég vil taka það fram út af ræðu hæstv. fjmrh., að meiri hl. n. er það að sjálfsögðu ljóst, að hér er ekki um neina nýja fjáröflun að ræða, heldur er þetta frv. til þess að tryggja betur en ella, að féð verði til, þegar á þarf að halda. Það er. auðvitað rétt, að Alþingi hefur ráð yfir fénu og því þess vegna aðeins ráðstafað með samþykki Alþingis, annaðhvort fyrir fram eða eftir á.

Hv. þm. A.-Húnv. sagðist ekkert sjá unnið við það að skipta ríkissjóðnum. Ég minnist þess þó, að hann hefur stundum gert athugasemdir við, að fé úr ríkissjóði væri varið umfram það, er fjárlög heimila. Bjóst ég því við, að hann væri ekki á móti því að gera ráðstafanir til þess, að tekjuafgangi ríkissjóðs væri nú ekki eytt á þann hátt. En hann telur kannske minni hættu á því nú en fyrr. Ég minnist þess einnig, að einn þm. Sjálfstfl. flutti í fyrra tillögu þess efnis, að ríkisstjórnin léti fara fram rannsókn á því, hvort tiltækilegt væri að taka hér upp skyldusparnað. Ríkisstjórnin hefur nú látið framkvæma slíka athugun. En það hefur komið í ljós við umr. um það mál í fjhn., að fulltrúi Sjálfstfl. þar virðist hafa lítinn áhuga fyrir málinu, þegar til á að taka.

Út af fyrirspurn hv. þm. Seyðf. um það, hvernig meiri hl. n. telji, að ráðstafa beri fé úr þessum sjóði, vil ég benda á nál. meiri hl. Þar er að vísu aðeins um bendingar að ræða.