16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sjá má í nál. minni hl. fjhn., hefur n. klofnað. Tvö nál. hafa því verið gefin út, enda þótt mikið beri ekki á milli. Hv. form. n., núverandi hæstv. atvmrh., leggur til, að málinu sé vísað til ríkisstj., en hv. 10. landsk. og ég viljum mæla með því, að frv. verði samþ. Við lítum svo á, að rétt sé að nota þetta tækifæri til þess að koma upp varasjóði, sem hægt sé að grípa til, þegar að kreppir á ný. Fyrir hreina tilviljun og af utanaðkomandi áhrifum hefur ríkissjóður fengið ógrynni fjár í tekjuafgang á s.l. ári. En ekki má búast við, að þessi gullöld eigi sér langan aldur, heldur er það víst, að framtíðin ber í skauti sér óteljandi erfiðleika okkur til handa. Er þá gott að eiga varasjóð til þess að grípa til. Höfuðtilgangur sjóðsins á að vera að styðja atvinnuvegi þjóðarinnar, þegar að kreppir. Þetta, að stofna slíkan varasjóð, er ekki nýtt fyrirbrigði. Á dögum Hilmars Finsens landshöfðingja var stofnaður slíkur sjóður, er kom sér vel síðar, sem sé Viðlagasjóðurinn gamli.

Ég þarf ekki að kynna efni frv., en lagt er til, að stofnaður verði sjóður, er beri nafnið framkvæmdasjóður ríkisins. Gert er ráð fyrir, að 10 milljónir króna af tekjuafgangi ársins 1941 renni í sjóðinn, auk þess 3/5 af tekjuafgangi þessa árs. Féð á svo að vera geymt í Landsbankanum. Það er talið, að tekjuafgangur ríkissjóðs árið 1941 hafi verið um 17 millj.kr. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja til hliðar 10 millj. kr. af þessum tekjuafgangi í því augnamiði, sem ég hef nú getið um.

Í l. frá síðasta reglulegu Alþ. um heimild fyrir ríkissjóð til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna er gert ráð fyrir því, að verja megi allt að 3 millj. kr. af tekjum ársins 1941 til þeirra ráðstafana, sem þessi l. fjalla um. Enn fremur er það, að fram er komin till. til þál. um fjárframlag vegna sauðfjársjúkdóma, þar sem farið er fram á það, að 3 millj. kr. af tekjum ársins 1941 verði lagðar fyrir, eins og það er orðað, til þess að standast útgjöld vegna sauðfjársjúkdóma þeirra, sem nú herja landið, m.a. til þess að koma upp nýjum, ósýktum fjárstofni. Þannig er það, að við meirihlutamennirnir, eða a.m.k. ég, gerum ráð fyrir því, að líklegra sé, að þessi þáltill. verði samþ. Ef þetta er þá lagt saman, það, sem þetta frv. fer fram á, og það, sem dýrtíðarl. frá því í fyrra heimila að taka af tekjum ársins í fyrra. og það, sem þessi þáltill., sem ég nefndi, fer fram á, þá eru þar komnar 18 millj. kr. eða líklega rúmlega það, sem tekjuafgangur ársins 1941 var. Með tilliti til þessa ber meiri hluti n. fram brtt. við frv., 2. gr. þess, um það, að í staðinn fyrir 10 millj. kr., sem lagt sé í framkvæmdasjóð af tekjum ársins 1941, komi 8 millj. kr. Þessi brtt. er ekki fram borin sökum þess, að við álítum, að þessar 10 millj. kr. séu í sjálfu sér of hátt framlag, sem farið er fram á í frv. Það væri náttúrlega mjög æskilegt, ef hægt hefði verið að halda sér við ákvæði frv. í þessu efni. En ef farið er að samþ. ávísanir í þennan tekjuafgang frá 1941, sem eru hærri heldur en hann raunverulega er, þá sýnist það vera tilgangslaust. Og það er eingöngu með tilliti til þess, að við berum þessa brtt. fram.

Það er hér komin fram brtt. frá hv. meðnm. mínum, 10. landsk., sem skrifaði reyndar undir nál. með fyrirvara. Skal ég ekki ræða um hann fyrr en hann hefur gert grein fyrir henni sjálfur.