18.05.1942
Efri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni. Mér finnst brtt. hv. 1. þm. Eyf. eiga fullan rétt á sér, úr því að byrjað er á því á annað borð að telja upp verkefni þessa sjóðs, en ég tel það formgalla á frv,. að upptalningin skuli ekki vera í 3. gr. þess, því að þar átti hún í raun og veru betur heima, en þetta gerir ef til vill ekki svo mikið til, enda þótt það hefði verið heppilegra.

Annars sýnist mér þessi brtt. benda til þess sama og ég hreyfði við 2. umr. málsins, að hér verði aðeins um bollaleggingar að ræða, sem byggjast á tilviljunum. Það er eðlilegt, að hér komi til greina að undirbúa þá tíma, er taka verður við fólki, sem verður atvinnulaust eftir stríðið, og búa í haginn fyrir það á ýmsan hátt. Margt þarf að gera, og ég tel rétt, að skipuð verð n. hæfustu manna til þess að undirbúa þetta verkefni, Það er að vísu ágætt að hafa nóg býli í sveitum landsins, en ég óttast, að fólk fáist ekki til að flytja út í sveitirnar. Mörg eru dæmi þess, hvað menn eru tregir til að fara úr bæjunum út í dreifbýlið. Ég get nefnt eitt dæmi héðan úr Reykjavík. Embættismaður einn hér í bæ var beðinn að útvega ráðsmann á góðan sveitabæ, en það reyndist ókleift. — En þeir, sem eru atvinnulausir, það má vel vera, að marga þeirra megi fá út í sveitirnar, þegar skorturinn tekur að sverfa að þeim.

Svo er annað ekki veigaminna atriði, sem verður að taka til greina í þessu sambandi, en það er, hvort markaður fæst fyrir landbúnaðarafurðir, ef landbúnaðurinn eykst. Það hefur. oft reynzt erfitt hingað til, og þess vegna verður einnig að spyrja um hlutfallið milli neytenda og framleiðenda. Ég segi þetta sem frsm. minni hluta fjhn. og get að endingu sagt, að vel verður til alls þessa að vanda, ef framkvæmdasjóður ríkisins á ekki að verða annað en formið tómt.