16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi brtt. á þskj. 46 frá tveimur hv. þm. gerir ráð fyrir, að l. um bindingu gjaldeyris verði felld úr gildi. Ég get ekki mælt með því, að þessi brtt. verði samþ., af þeim ástæðum, sem nú skal greina:

Það voru aðallega tvenns konar rök, sem lágu til þess, að byrjað var því að binda inni hluta af þeim gjaldeyri, sem menn fengu fyrir útfluttar afurðir. Það fyrst, að mönnum óx í augum, hversu innistæður bankanna erlendis jukust ört, og menn töldu ekki réttlátt, að bankarnir héldu áfram takmarkalaust að kaupa gjaldeyri, þegar þannig stæði á. Mönnum fannst að ef takmarka þyrfti gjaldeyriskaup bankanna, þá væri eðlilegast, að sú takmörkun væri þannig framkvæmd, að bankarnir keyptu ekki þann hluta af gjaldeyrinum, sem svaraði til gróðans af útflutningnum. Þess vegna voru sett þau l., sem hér eru til umr., sem heimiluðu að loka inni erlendis hluta af þeim gjaldeyri, sem menn fengu fyrir þessar afurðir. Þetta hefur verið framkvæmt þannig að vísu,að ekki hefur þótt fært að binda inni hluta af verði því, sem íslenzkir framleiðendur hafa fengið fyrir sínar vörur, t.d. fisk, sem seldur hefur verið hér skv. brezka samningnum í skip til útflutnings. Og ekki hefur heldur verið bundið neitt af gjaldeyri fyrir afurðir sem hliðstætt hefur verið farið með. Hins vegar hefur verið bundinn inni gróði þeirra, sem flutt hafa ísfisk á erlendan markað, og lítið eða ekkert annað, vegna þess að það er gróðinn alveg ósambærilegur að vöxtum við það , sem menn almennt hafa grætt af sölu afurða. Það hefur ekki heldur þótt fært að binda inni neitt af því kaupi, sem Íslendingar hafa unnið fyrir hjá erlendu herjunum, sem hér hafa verið. Af þessu hefur leitt það, að það eru tiltölulefa litlir fjármunir, sem þannig hafa bundnir verið. Alls er bundið inni þannig í dag um 400 þús. sterlingspund. En það, sem þannig hefur verið bundið, er stórgróðinn sem mönnum er ekki eins mikil nauðsyn á að fá í sínar hendur eins og tekjur af öðrum útflutningi.

En ástæðan, sem lá til þess, að menn settu þessi l., var talsvert anars eðlis. Menn fundu það mjög greinilega, að það peningaflóð, sem inn í landið hafði glætt um skeið fyrir afleiðingar styrjaldarinnar, hafði ýmis miður heppileg áhrif á fjármálalífið. Og mönnum virtist liggja í augum uppi, að stórgróðinn, ef hann mætti óhindrað flæða yfir, mundi ýta undir alls konar brask og verðbólgu, sem mönnum þótti sérstaklega óheppilegt, að leikið gæti lausum hala. Menn fundu þess vegna, að ef stór hluti stórgróðans, eða mestur hluti hans, væri bundinn á þennan hátt, sem hér er um að ræða, mundi líka vinnast það, að hann yrði ekki notaður á þann hátt, að hann yki verðbólguna og þá miklu hættu, sem á því er, eins og nú standa sakir, að fasteignasölur eigi sér stað í stórum stíl, þannig að fasteignir í landinu fljóti upp í peningaflóði, ef maður mætti svo að orði kveða, með þeim afleiðingum, sem flestir eru sammála um, að séu mjög óheppilegar. Nú er það svo, frá mínu sjónarmiði, að báðar þessar ástæður eru fyrir hendi. Og þess vegna get ég ekki séð ástæðu til að afnema þessi I. Því er enn svo háttað, að gjaldeyrisinnieignir bankanna erlendis eru nokkuð miklar. Og ekki er minni hætta nú en áður á hvers konar óheppilegum afleiðingum af fasteignaverzlun og öðrum slíkum afleiðingum, sem mundu óhjákvæmilega koma fram, ef allur stærsti gróðinn væri laus látinn til ráðstöfunar.

Það er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. upplýsir að um stundarsakir hefði verið horfið frá að binda hluta af andvirði fisksins, sem fluttur hefur verið til Englands, þ.e.a.s., Íslendingum hefur verið greitt með dollurum, en það er stundarfyrirbrigði, því að það hefur verið dollaraskortur, en ef að líkum lætur, verður að binda þetta á ný alveg eins og sterlingspundið áður.

Ég geri ráð fyrir, að bent verði á, að síðari ástæðan sé veigalítil, að nauðsynlegt sé að hafa þetta fé bundið til frambúðar til ýmissa hluta, sem hafa óheppilegar afleiðilgar, þar sem meginhlutinn af þessu fé mundi fara til ríkis og bæja samkv. l. um þann skatt, sem við erum nú að lögleiða. Þetta er að verulegu leyti rétt, langmestur hlutinn mundi fara í skatt eða verða bundinn í sjóðum. En þess er að gæta, að það mundi líða hátt á annað ár, frá því að gróðinn kemur fyrst eigendunum í hendur og bannað til þyrfti að greiða hann þannig að mestu leyti. Það er því víst, að þetta fé mundi verða laust til venjulegrar umferðar langan tíma, þangað til það yrði þannig bundið. Mér virðast því báðar ástæðurnar enn fyrir hendi í talsvert ríkum mæli. Má segja, að síðari ástæðan sé ekki fyrir hendi í alveg eins ríkum mæli, að ekki sé ástæða til að afnema þessi l. Auk þess vil ég benda á, að ef þessi l. yrðu afnumin nú, þá mundu losna til ráðstöfunar talsvert stórar fjárhæðir, sem mundi áreiðanlega ekki verða heppilegt frá almennu sjónarmiði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en þetta eru þær meginrætur, sem mér finnst liggja að því, að ekki sé rétt að afnema þessi l., en tel rétt, að þau standi í gildi með þeim breyt., sem lagt er til í frv.