02.05.1942
Efri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

*Magnús Jónsson:

Mér finnst ekkert undarlegt, þó að hv. 1. þm. N.- M. hreyfi andmælum og athugasemdum, en hitt er mér alveg óskiljanlegt, það kapp, sem hann leggur á að breyta frv. Meira hefur nú verið lagt á vald stjórnarinnar en að selja eitt lítið kot. Það er hins vegar alkunna, að hér í nánd við Reykjavík eru góðar sauðfjárjarðir, en á seinni árum hefur fjáreign bænda minnkað vegna aukinnar mjólkurframleiðslu, svo að sennilega skortir þá allt fremur en upprekstrarland. En þetta er algengt, að bæir tryggi sér skákir í upprekstrarlöndum handa sínum búpeningi. — Að öðru leyti er þetta smáatriði og alveg óhætt að trúa ríkisstjórninni fyrir því.

En viðvíkjandi því að setja skilyrði um að bærinn selji ríkinu annað land í staðinn, finnst mér, að það komi þessu máli ekkert við.

Það á að flytja um það sérstakt frv., ef menn vilja láta ríkið fá heimild til þess að kaupa það land. hetta er því alveg meiningarlaust, enda alls ekki sanngjarnt að reyna að pressa út úr einhverjum það, sem hann kannske ekki vill selja.

Það er nauðsynlegt fyrir bæin að eignast þetta land, og vil ég óska, að hv. flm. falli frá þessari till. Beri þá heldur fram annað frv. eða a.m.k. till. til þál. Annars skil ég aldrei, þegar þm. eru að hlaupa fram fyrir skjöldu alveg óbeðið, af eintómri landsföðurlegri umhyggju. Hvaða afskiptasemi er þetta? Hefur þm. verið beðinn þess?

En ég legg áherzlu á, að þessar brtt. séu felldar.