04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

Ingvar Pálmason:

Ég kvaddi mér hljóðs á síðasta fundi aðallega til að óska eftir, að málið yrði tekið af dagskrá, en hæstv. forseti ákvað þá, að svo skyldi gert, áður en ég tók til máls. Ástæðan til þess, að ég vildi, að málið væri tekið af dagskrá, var sú, að ég vildi, að allshn. gæti sameiginlega athugað brtt., sem fyrir lágu. Samt hefur farið svo, að n. hefur ekki gert þá athugun. Aftur á móti hef ég átt tal við hv. form. n., og tjáði hann mér, að hann vildi ekki ljá þessum brtt. lið. Ég aftur á móti gæti fylgt 1. liðnum með því móti, að við hann sé bætt því, sem sleppt er úr 1. gr. frv., sem sé, að námuréttindi séu undanskilin. Ég byggi þessa skoðun á því, að það hefur komið fram, að Mosfellshreppur vill neyta forkaupsréttar síns á því landi Hólms, sem er í Mosfellssveit. Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. N.- M., og mér er líka kunnugt um það annars staðar frá. Mér virðist því ástæðulítið að gera ekki strax þessa leiðréttingu, vegna þess að ég vil ganga út frá, að minn skilningur sé réttur á því, að forkaupsréttur sveitarfélags og ábúanda sé ekki afnuminn með þessari heimild. Það gæti líka torveldað fyrir Reykjavík að fá þessi kaup afgerð, ef gengið væri þannig frá málinu, að fyrirfram væri víst, að það gæti ekki gengið fram án ágreinings. Ég held því, að rétt sé að samþ. þessa brtt. hv. 1. þm. N.-M., þó með þeirri breyt., að námuréttindi séu undanskilin. Vil ég því leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. um það.

Um hinar brtt. vil ég segja það, að ég g et ekki léð þeim atkv. Ég tel, að þar sé að sumu leyti um það að ræða, sem d. hefur áður tekið afstöðu til þannig lagað, að hún vilji ekki samþ. sölu mismunandi eigna í einu og sama frv., þar sem af því gæti leitt nokkurt ósamræmi, því að ekki er alltaf víst, að það sama eigi við um það, sem á þennan hátt kynni að verða skeytt saman. Einnig eru sett þarna inn skilyrði, sem mér finnst ekki geta samrýmzt. Ég vil ganga út frá að ríkinu sé þörf að eignast land til viðbótar við Keldnaland, en ég geri ráð fyrir, að um það náist samningar, en náist þeir ekki, álít ég, að koma verði til eignar- eða leigunámsheimild á því landi. Mér finnst, að þótt það sé hugsanlegur möguleiki, að nota megi land Hólms í sambandi við það starf, sem á að verða á Keldum, þá sé það miklum erfiðleikum bundið, og vil því meina, að það spursmál yrði leyst á annan hátt heppilegar. Auk þess virðist mér bráð þörf á, að Reykjavíkurbær fái það landsvæði, sem vatnsból bæjarins á upptök sín á.

Læt ég svo þetta nægja, en vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.