04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hef aldrei fengið tækifæri til að skýra frá því í sambandi við þetta mál, að nokkru áður en þetta frv. kom fram, hafði ég látið skrifa bréf til núverandi bæjarstjórnar, vegna. þess að mér er kunnugt um, að bænum leikur hugur á að eignast Hólm, þess efnis, að ég vildi gjarnan, að upp væru teknir samningar þegar um það, að bærinn fengi keypt þetta land, sem hann hefði mikla þörf fyrir, en í staðinn fengi ríkissjóður keypta landaspildu af Gufunesi, Knútskot, sem það raunverulega heitir og liggur á milli Gufuness og Keldna, og síðan, ef samningar næðust, sem ég vænti, að mundi verða, þá leitaði stj. heimildar Alþ. um, að hún mætti skrifa undir slíka samninga, en svo kemur þetta frv. fram rétt á eftir, og hef ég að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Mér finnst eðlilegt, að bæjarsjóður fái að kaupa þessa jörð, fyrst og fremst vegna þess, að vatnsból bæjarins er í þessari landareign, og hefur hann þurft að fá stöðugt stærra land í kringum það, og jörðin liggur að mikilli eign, sem bærinn á, Elliðavatni og umhverfi þess. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að mikið af þessu landi yrði látið af hendi með einhverju móti undir svokallaða Heiðmörk, en það er nokkur hluti af Hólmslandi, sen tekinn hefur verið og á að friða og rækta þar skóg, og á þetta að verða skemmtistaður fyrir Reykvíkinga. Af þessum ástæðum er búið að rýra svo Hólm, að hann er orðinn lítil ábýlisjörð, en landið, sem hann hefur enn til umráða, er mjög hentugt fyrir Reykjavík.

Síðan ég kom í stj., hefur aldrei orðið ágreiningur milli ríkis og bæjar út af landi, sem hver aðilinn um sig hefur þurft á að halda. Því hefur verið heitið í sambandi við þennan fyrirhugaða skemmtistað að láta suðurhluta Vífilsstaðalandi, þannig að Reykjavík gæti koanið sér upp þessum skemmtistað. Sá hluti landsins, sem Hólmur á fyrir austan Elliðavatn, er mjög vel fallinn til skógræktar og er eini staðurinn í nágrenni Reykjavíkur, þar sem dálítil björk er, og þegar ég gekk þar um fyrir nokkrum árum oftar en einu sinni, þá var þar talsvert stór björk, enda eru sannanir fyrir því, að þar var einn sá allra bezti skógur, sem til var á þessum slóðum, enda var sóttur þangað eldiviður langar leiðir frá. Suðurhluti Vífilsstaðalands, svonefndir Hjallar, er ákaflega fallegt land, og hefur verið hugsað til þeirra í þessu sambandi. Það er því eðlilegt, að Reykjavík vilji fá þetta land. En þannig er málum háttað, að rakið hefur keypt Keldur í Mosfellssveit. Hún liggur við innanverðan Grafarnesvog og á land út með vognum. Af þessu hefur verið selt talsvert land. Þess vegna er landrými of lítið þarna fyrir þessa stofnun, en við, sem nú erum í stj., getum ekki séð fram á, að þessi rannsóknarstöð, sem þarna á að koma upp smátt og smátt, geti verið á öðrum stað í nágrenni Reykjavíkur, sem, hentugur er.

Þessi tilraunastofnun verður að vera í nágrenni Reykjavíkur, því að þeir menn, sem vinna við stofnunina, eru vísindanenn, sem einnig hafa störfum að gegna í Reykjavík.

Stofnun þessi kemur ekki að fullum notum, nema hún fái meira landrými en hún hefur nú, og öll sanngirni mælir með, að ríkið fái þennan umrædda jarðarpart keyptan. Þess vegna skrifaði ég bréf til Alþ., þar sem ég kvaðst fús til, að samningar færu fram um sölu Hólms til handa Reykjavíkurbæ, en ríkið keypti aftur annað. land af bænum til handa Keldum.

Nú liggur hér fyrir brtt. viðvíkjandi þessu. Ég er henni í rauninni samþ., þó að ég viðurkenni, að hægt sé að koma með ýmis rök gegn henni. Ég treysti mér ekki til að vera á móti henni, því að sá ráðherra, sem fær málið til meðferðar, gæti sagt sem svo: Till. lá fyrir Alþ. um þetta efni, en hún var felld, þar af leiðandi vill Alþ. selja Hólm án þess að setja nokkur skilyrði fyrir þeirri sölu. — Það er ætlazt til, að sá ráðh., sem fái þetta til meðferðar, geti sagt, að skilyrði hafi legið fyrir um að selja ríkinu aðra jörð í staðinn, en ef þessi brtt. er felld, þá er það skilyrði ekki lengur fyrir hendi. Ég vænti þess, að Reykjavíkurbær verði því samþ., að ríkið fái land fyrir þessa tilraunastofnun hér í nágrenninu.

Viðvíkjandi því, sem rætt var um hér áðan, hvort forkaupsréttur ábúanda jarðarinnar eða hreppsins falli niður með þessum l., þá lít ég svo á, að hann standi jafnt óhaggaður eftir sem áður. Því að eignarrétti verður ekki raskað nema með eignarnámi. En ég geri ráð fyrir, að þessi jörð verði svo hátt metin, að óaðgengilegt verði bæði fyrir ábúanda og hreppinn að festa kaup á henni, því að verð á jörðum hér í nágrenni Reykjavíkur er svo hátt nú orðið, að þær eru varla kaupandi til þess að stunda á þeim búskap. Þess vegna get ég lýst því yfir, að ég er því samþ., að ríkið selji bænum Hólm, með því skilyrði, að bærinn láti af hendi annað land fyrir ríkið.