04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

*Magnús Gíslason:

Með þessum brtt., sem fram eru komnar á þskj. 288, virðist mér vaka fyrir hv. flm., að með frv. sé ekki gætt hagsmuna. tveggja aðila, hreppsins og ríkissjóðs, og virðist mér sem hann ætlist til, að brtt. eigi að bæta úr þessu. Viðvíkjandi því ákvæði í brtt., að ríkisstjórninni heimilist að selja Mosfellssveit hluta af Hólmslandi, þá veit ég ekki til þess, að n. hafi borizt óskir frá hreppnum, þar sem hann fer fram á að kaupa þennan landshluta.

Nú hefur hv. 2. þm. S.-M. lýst því yfir, að hreppurinn vilji fá þetta land keypt, og ég hef átt tal við borgarstjóra um málið, og hann segir, að bæjarstjórnin sé reiðubúin að semja um þetta atriði. Eins og hæstv. forsrh. tók fram, og er ég honum þar alveg sammála, að þótt frv. sé samþ. óbreytt, þá hefur hreppurinn samt sem áður forkaupsrétt að jörðinni, og er ekki hægt að svipta hann þeim rétti nema með eignarnámi. Brtt. hv. 2. þm. S.- M. þýðir í rauninni það, að ef hreppurinn vill ekki kaupa þennan skika, þá má ríkisstj. ekki selja Reykjavíkurbæ hann. Þess vegna legg ég til, að brtt. verði felld. Sama máli finnst mér og gegna með hina brtt., og er ég henni því ósamþykkur. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að ríkið vildi fá keyptan hluta af Knútskotslandi. Ég hef enn fremur minnzt á þetta atriði við borgarstjóra, og hann er fús til þess að leita samkomulags við ríkisstj. um það atriði.