04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er alveg rétt, að dálítill dráttur hefur orðið á framkvæmdum í þessum efnum, og mun það fyrst og fremst stafa af því, að málið er hér til umr. á Alþ., en þetta ætti nú að lagast.

Ég fyrir mitt leyti er ekkert hræddur um, að bæjarstjórnin fáist ekki til að selja ríkinu hluta af Knútskotslandi fyrir tilraunastofnunina á Keldum, því að Knútskot er grýtt land og mikill munur á því og Hólmslandi, sem er prýðisvel fallið til ræktunar og enn fremur einhver fegursti staðurinn í nágrenni Reykjavíkur. En aðalatriðið er, að ríkið fái land hér í nágrenninu fyrir þessa stofnun á Keldum.

*Jónas Jónsson: Ég álít mjög eðlilegt, að Reykjavíkurbær vilji fá Hólm, en það er mikil nauðsyn fyrir ríkið að fá land út frá Keldum, og það lítur út fyrir, að Keldur þurfi land á tvo vegu. Annað er hið umrædda land frá Knútskoti, og hitt er land, sem Keldur áttu áður fyrr, en Thor Jensen keypti síðar. Nú fara fram samningar um, að bærinn kaupi flestar jarðeignir Thors Jensens, en um það er ekki ákveðið enn þá. Thor Jensen er fáanlegur til að selja ríkinu þetta stykki, ef bærinn kaupir það ekki. en þar sem mikið útlit er fyrir, að bærinn kaupi það, þá þarf ríkið að eiga gott við bæinn í þeim sökum, því að Keldum er fullnægt, ef þær fá sitt gamla land að viðbættum þessum skika frá Knútskoti.

Ég vil skjóta því til hv. 1. þm. Reykv., hv. 11. landsk. og hv. 2. landsk., hvort þeir væru því ekki samþ. að taka málið út af dagskrá í dag og fá yfirlýsingu borgarstjóra um, að Reykjavíkurbær léti af hendi þetta land.