09.04.1942
Efri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

66. mál, eignarnámsheimild á heitu vatni og landi í Siglufirði

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Eins og sú stutta grg., sem fylgir þessu frv., ber með sér, þá er þetta ekki nýtt mál hér í hv. d., heldur var þetta borið fram á aðalþinginu 1941, og fylgdi því þá allýtarleg grg., eða 7 fylgiskjöl samtals, og er þau að finna á þingskjali nr. 81 frá aðalþinginu 1941. Þetta frv. var þá afgr. til n., en nál. kom ekki. Mér þykir rétt að benda með nokkrum orðum á ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. kom fram á aðalþinginu 1941 og er komið fram aftur nú.

Í svo kölluðum Skútudal í Siglufirði, stuttan spöl frá bænum, eru nokkrar heitar uppsprettur. Þetta vatn er þó ekki mjög heitt og er mjög lítið að magni til. En órannsakað er, hvort hægt er að auka vatnsmagnið eða hitann með greftri eða borun.

Það var a.m.k. um tíma lítill áhugi fyrir því á Siglufirði, að bærinn keypti þetta land. Því að það mun hafa verið gerð tilraun til þess af núverandi landeiganda, að bærinn sem slíkur keypti landið. En á þeim tíma var það þó ekki samþ. í bæjarstjórninni. En nú, eftir að farið hefur verið að bora eftir heitu vatni og komið hefur í ljós, að hægt hefur verið með því að fá heitara vatn og meira magn, hefur vaknað áhugi fyrir því á Siglufirði að rannsaka, hvort nóg vatnsmagn er á þessum stað til þess að hita upp bæinn eða nokkurn hluta hans. Má geta þess, að á 500. fundi bæjarstjórnar Siglufjarðar þ. 20. maí 1938 var samþ. í bæjarstjórninni að beita sér fyrir því, að framkvæmdur yrði gröftur til þess að rannsaka, hve mikið af heitu vatni mætti. fá þarna í Skútudal. Úr þessum framkvæmdum hefur ekki orðið, og hefur strandað aðallega á því, að heitu laugarnar eru í eign einstaklings og bærinn hefur ekki viljað kosta til þess að láta leita að vatninu, því að hann hefur talið, að það mundi auka verðmæti landsins svo mikið, að bænum yrði illkleift að kaupa, það, ef nægilegt vatn fyndist þar, til þess að hægt væri að hafa þess not. Bæjarstjórnin telur óeðlilegt, að einstaklingur, sem ekkert hefur lagt fram til þess að eignast þetta vatn sérstaklega, nyti arðsins af því, en ekki bærinn fyrst og fremst sem slíkur. Fyrrverandi bæjarstjórn á Siglufirði var með því, eins og ég hef tekið fram, og einnig er hin nýkosna bæjarstjórn með því, að bærinn fái þessi vatnsréttindi og nauðsynlegt land keypt. Það, að þessar bæjarstjórnir, hvor fyrir sig, eru báðar sammála um þetta, mál, sést bezt á því, að núverandi bæjarstjórn hefur ítrekað beiðni fyrrverandi bæjarstjórnar til þingmanna Eyjafjarðarsýslu og þeirra uppbótarþingmanna, sem voru í kjöri þarna í kjördæminu við síðustu kosningar, um að beita sér fyrir framgangi þessa máls.

Ágreiningurinn milli bæjarstjórnar á Siglufirði annars vegar og bæjarfógetans hins vegar, sem á þetta land, er sá, að bæjarfógetinn vill ekki láta bæinn fá þetta land fyrr en búið er að leita að vatninu. En jafnframt býðst hann til þess, ef vatn finnst ekki nægilegt, að bærinn þurfi ekki að kaupa landið, heldur aðeins bæta fyrir það jarðrask, sem búið væri að gera á því. En bæjarstjórn vill f.h. bæjarins kaupa landið, áður en leitað er að vatninu, og taka á sig áhættuna um, að þarna finnist e.t.v. ekki nóg vatn, en vill hafa vatnsréttindin og hæfilegt land til afnota fyrir bæjarbúa, ef nægilegt vatn kynni að fyrirfinnast.

Það virðist sýnt, þar sem við síðustu bæjarstjórnarkosningar á Siglufirði skiptist um pólitískan meiri hluta í bæjarstjórninni, og bæjarstjórnin er samt jafneinhuga um þetta mál nú sem hin fyrrverandi bæjarstjórn var, að þá geti ekki orðið samkomulag milli bæjarstjórnarinna: og landeiganda um kaup á þessu landi. Því er ekki um annað fyrir bæjarstjórnina að gera en að leita samþykkis hæstv. Alþ. fyrir eignarnámi á þessu landi sem allra fyrst, svo að hægt verði að gera framkvæmdir í því skyni að skera úr því, hvort þarna sé hægt að ná í nægilegt vatn til þess að hita upp Siglufjarðarbæ og til annarra hluta.

Ég vil svo leyfa mér að óska eftir því, að þessu máli verði vísað til hv. allshn. að lokinni umr., og vil leyfa mér jafnframt fyrir hönd flm. frv. að óska þess, að n. afgr. málið frá sér sem allra fyrst og líti á þá nauðsyn, sem er fyrir Siglufjarðarkaupstað að fá þessa eignarnámsheimild samþ.