29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti ! Eins og kunnugt er, hefur mál þetta gengið í gegnum Nd., og er rétt að geta þess, að sams konar brtt. og sú, sem ég flyt hér, var felld í Nd., mér er nær að halda að lítið athuguðu máli. Ég veit ekki, hvort það þýðir að telja fram þau rök, sem ég álít, að liggi til grundvallar brtt. á þskj. 263, án þess, að sá ráðh., sem þar um fjallar, sé við. Ástæðan til þess, að þessar brtt. eru fluttar, er sú, að lög þau, sem um er að ræða, eru orðin bókstaflega þýðingarlaus. Lög um viðauka við gjaldeyrisverzlun frá 1937, þar sem ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að bankarnir skuli leggja nokkurt fé inn á biðreikninga erlendis, eru í raun og veru orðin úrelt, síðan gerðir voru samningar við Bandaríkin, að sá útflutningur, sem um er að ræða, skuli greiddur í dollurum. Sú upphæð, sem hér er um að ræða, mun vera um 400 þús. sterlingspund, eða sama og rúmar 10 millj. króna. Það mun hafa verið tilgangurinn með þessum lögum, að þessu fé yrði ekki hleypt inn í óþarfa veltu og brask og skapa verðbólgu á þann hátt. Það getur vel verið, að á þeim tímum, sem þetta var gert, hafi verið rétt, að stjórnin hefði þessa heimild. Þó er nær að halda, að af öðru fé en hér er um að ræða hafi frekar skapazt verðbólga í peningamarkaði hér á landi. hað er vitanlegt, að það fé, sem bundið hefur verið inni eða fryst, er eingöngu fyrir ísfisk. Nefnd sú, sem hafði með þetta að gera, ákvarðaði í hvert sinn, hve mikið fé hvert ísfiskskip mætti heim flytja af andvirði farmsins til nauðsynlegra útgjalda, en hitt var svo bundið í Englandi. Ég hef átt tal við einn af bankastjórum Landsbankans fyrir löngu, áður en kom til, að Ameríka borgaði í dollurum fisksendingar til Bretlands, og hann taldi þau þýðingarlaus. Enda er hér aðeins um að ræða 101/2 millj. kr., og það mun hafa litla þýðingu að frysta þá upphæð inni í öllu því peningaflóði, sem nú er. Enn fremur hljóta þessi lög að koma ójafnt niður, og mér finnst ekkert réttlæti í því að frysta fé inni fyrir aðeins eina vörutegund, því að þannig hefur það verið í framkvæmdinni, þó að ekki sé tekið fram í heimildinni, að hún skuli aðeins ná til einnar vörutegundar. Það eru til menn, sem hafa aðeins selt fisk á erlendum markaði á því tímabili, sem bindingin var lögleidd og eftir það, en ekki áður. Ef þessir sömu menn hættu slíkri útflutningsstarfsemi nú, mundu þeir aðeins hafa stundað hana á þeim tíma, sem bindingin átti sér stað.

Þeir, sem á undan voru, og þeir, sem á eftir komu, fá sína peninga umreiknaða á venjulegan hátt, eins og áður en bindingin var lögleidd. Nú frá nýári er mér ekki kunnugt um annað en að afreiknað hafi verið hvert einasta pund, sem aflazt hefur fyrir ísfisk. Þessi binding er í sjálfu sér lítið til óþæginda fyrir þau fiskútflytjendafélög, sem starfað hafa frá byrjun stríðsins, og þau hafa fengið næstum allt sitt andvirði umreiknað, því að pundin, sem eru bundin fyrir þeim, eru ekki nema litill hluti af þeim peningum, sem þau geta velt í þessu skyni. Eins og ég benti á, þá eru til fyrirtæki, sem eingöngu hafa lent í þessar í bindingu, og þau eru þannig stödd í dag, að þó að þau eigi talsvert fé í frosnum pundum, þá hafa þau ekki nokkurt fjármagn í rekstrinum. Einn slíkur maður komst þannig að orði við mig um daginn, að þó að hann ætti fleiri þús. pund úti í Englandi, gæti hann ekki keypt nauðsynjar sínar hér á landi né fengið nægilegt fé í reksturinn. Þetta er sýnilegt misrétti gagnvart þegnum landsins. Ég hygg, að togarafélögin hafi lítið kvartað í þessum efnum, enda voru þau, áður en bindingin kom til greina, búin að senda fiskinn og fá andvirðið umreiknað. Eins og ég benti á, hafa þessi lög ekki verið framkvæmd síðan Ameríku-umreikningurinn á fiski kom til greina. Þegar þess er gætt, að nokkrir þegnar þjóðfélagsins eru settir á verra sess heldur en aðrir, enn fremur, að hér er um svo litla peninga að ræða, þá virðist mér, að annaðhvort ætti að nema lögin úr gildi eða gera gagngerðar umbætur á þeim, þannig að sumir þegnar þjóðfélagsins verði ekki beittir svo herfilegu misrétti. Nú verða þeir menn, sem eiga þessa peninga, að telja þá fram til skatts, þó að þeir hafi þeirra engin not og ómögulegt sé að segja, hvenær þeir verða fluttir inn. Peningar þessir eru geymdir úti á ábyrgð eigandans. Nú geri ég ekki ráð fyrir, að skattanefnd geri sig ánægða með, að þessi frosnu pund séu talin fram til skatts með öðru gengi en nú tíðkast, þó að enginn vilji umreikna þau. Sennilega fer mikið af þessum peningum til skattgreiðslu, og þegar loksins þau verða flutt heim, verður komið annað gengi og menn munu ef til vill verða fyrir tjóni á þann hátt. Mér finnst þetta mæla með því, að hér þurfi að koma breyting á, og ég sá ekki annað ráð vænna en að flytja till. um að afnema lögin. Ef einhver ný hætta væri í uppsiglingu með dollarann, gæti ríkisstjórnin á hvaða tíma sem er gefið út brbl. og komið nýrri bindingu á. Ég vildi heyra undirtektir hæstv. viðskmrh. og hvaða rök hann hefur fram að færa. Það eru einkum tvö atriði, sem mig langar til að heyra álit hæstv. ráðh. um, í fyrsta lagi, hvaða þýðingu þessi lög hafa fyrir þjóðarbúkap okkar og peningamál; í öðru lagi, hvernig é hægt að réttlæta það misrétti, sem hér á sér stað gagnvart þegnum þjóðfélagsins. — Ég vil ekki hafa orð mín fleiri að sinni.