13.05.1942
Efri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

118. mál, eignarnám landa á hverasvæðinu í Ölfusi

Jónas Jónsson:

Ég vil aðeins þakka n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Hún gat ekki lokið því fyrr en hún hefur gert, því að nauðsynlegt var að bera málið undir bæjarráð Reykjavíkur. Byggingarnar þarna eru nálega allar eign Reykvíkinga. Það er búið að byggja á sjálfu hverasvæðinu, og er farið út á svæði, sem er kalt, ég fæst jarðhiti þar ekki nema með dýrum borunum. Verður þarna skortur á hreinlætisaðstæðum, ef ekki verður komið á skipulagi. Eigendurnir eru margir, svo að óhugsandi er, að leigjendur og eigendur geti gert það átak, sem þarna þarf að gera. Ef frv. nær fram að ganga, hlýtur þarna að verða stórt þorp. Mér dettur í hug, að eftir nokkur ár verði þarna nærri því eins margir menn og eru í Hafnarfirði nú, og það er vegna þess fólks, sem þarna vill vera, að þetta frv. er borið fram, til þess að tryggja, að sú aðstaða, sem þarna er, geti orðið notuð sem skynsamlegast.

Ég þykist vita, að málinu verði vel tekið í d., fyrst n. tekur því svona vel. Ég vil beina því til hæstv. forseta, ef málið verður samþ. við þessa umr., hvort hann sjái sér ekki fært að taka það til 3. umr. síðar í dag. Það er stutt eftir af þingtímanum, en miklar annir, og gæti það því haft þýðingu, ef málið yrði afgr. frá þessari d. í dag.