15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

80. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég hef nú ekki flutt þetta litla frv. hér til þess að fara að vekja upp neinar deilur eða ýfingar um þetta ákveðna mál, mjólkurmálið, heldur hef ég gert það til þess að sýna hinu háa Alþ. í frumvarpsformi nokkuð af óskum mjólkurframleiðenda nokkurra, sem getið er um hér í grg. frv. Þeir telja hag sínum nokkuð þröngvað, eins og nú er ákveðið um framkvæmd á mjólkurl. Því að í raun og veru er hér um framkvæmd að ræða, og hefði í raun og veru ekki þurft frv. um þetta í sjálfu sér til þess að kippa þessu í 1ag, sem hér í frv. er farið fram á að lagfæra, heldur hefði mátt gera það með þál. og stjórnarráðstöfunum. En þau tvö atriði, sem ég hef tekið í þetta frv., virðist mér vera aðalkröfur bændanna, og eru þau, sem ég nú skal greina.

Fyrri breyt. felst í 1. gr. frv., sem er lítil og meinlaus, og ég hygg, að ekki verði mikil mótstaða á móti henni. Þar er gert ráð fyrir, að þegar lagt er verðjöfnunargjald á mjólk, sem ekki er afhent í samsöluna, þá skuli miða við 2500 lítra ársnyt úr kú í stað 3000 lítra í l. Það má að vísu kannske segja það, að það sé dálítið skrýtið að hagga þessu ákvæði. Upphaflega í l. var þessi útreikningur miðaður við undanþágu frá gjaldi, og það var ekki nema mannlegt, að þeir, sem áttu hlut að máli í þessu efni, vildu ýta á eftir því, að ársnytin væri metin ríflega, því að það var þeim hagur. En gjaldið er ákveðið þannig, að það er ekki nema eðlilegt, að þessir menn vilji nú, að heldur sé teppt á hinn hlunninn og ársnytin ekki metin svona há. Þessi ósk er alveg samkvæm l., því að í síðasta málsl. fyrri málsgr. 3. gr. l. frá 1937 (nr. 66) segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hafi hins vegar meðalársnyt í öðrum þeim lögsagnarumdæmum, þar sem sölusvæði er ákveðið, reynzt lægri samkvæmt skýrslum nautgriparæktarfélaga þar, skal gjaldið miðað við það.“ Og án þess að ég hafi þar um nákvæmar skýrslur, hef ég þar af sögur kunnugra manna, að það muni vera miklu nær 2500 lítrum meðalársnytin heldur en 3000 lítrum. Það er því ekki nema í anda þessarar gr. óbreyttrar í l., að þessi till. kemur hér fram. En með þessari gr., ef. samþ. verður, yrði skorið upp úr um það atriðl. Þetta er bara smáatriði, og getur það ekki verið ágreiningsmál.

Hitt ákvæði frv. er um að fella fyrst um sinn niður verðjöfnunargjaldið. Það er öðruvísi ástatt um það atriði, og munu um það að sjálfsögðu vera skiptar skoðanir. En það er ekki hægt að neita því, að það er dálítið einkennilegt, að hað skuli þurfa að hafa slíkar ráðstafanir um vöru, sem jafngreiðlega gengur út og hægt er að selja við jafnríflegu verði, eins og mjólk og mjólkurafurðir nú. Þegar l. voru sett, þá. var þetta gagnólíkt. Þá mátti segja, að það væri hægt að fá nokkurn veginn verð fyrir mjólkina, sem hætt var að selja sem neyzlumjólk. En vinnsluvörur úr mjólk voru hálfgerðir vandræðagripir. Og um osta var það þá eitt sinn sagt í gamni, að svo mikið væri til af ostum í búum austanfjalls, að þeir væru að hugsa um það þar, að fara að byggja vegi úr þeim. Það var á þeim tíma ákaflega erfitt að koma þeirri söluvöru mjólkurafurðanna í verð, sem ekki var hægt að selja sem neyzlumjólk. Misræmið milli neyzlumjólkurinnar og annarra mjólkurafurða, sem þá var viðkomandi sölumöguleikunum, er ekki til nú, þó að hins vegar geti orkað tvímælis um verðið á þessum vörum. En það orkar ekki tvímælis, að nú er yfirfljótanlegur markaður fyrir þessar vörur allar.

Það þyrfti í raun og veru ekki heldur um þetta atriði neina löggjöf, því að í 2. málsgr. 1. gr. l. nr. 66 frá 1937 er ákveðið, að gjaldið ákveðast fyrirfram af mjólkursölunefnd, og að það með breyta því svo oft sem þurfa þykir. Það hefi því í raun og veru verið nóg að samþ. þál. um þetta efni, þar sem skorað væri á ríkisstjórnina að hlutast til um það, að þetta gjald yrði annaðhvort fellt niður eða lækkað. En l. um þetta efni eru þó miklu öruggari, ef hæstv. Alþ. vill láta vilja sinn í ljós og taka af skarið um þetta. En það er ekki meiningin með þessu að víkja frá stefnu l. almennt.

Það eru nú tekin 10% af útsöluverði mjólkur, sem til greina kemur í þessu sambandi, í verðjöfnunargjald, og er það ákaflega hátt gjald. Þegar l. vom sett upphaflega, þorðu menn ekki að fara hærra en í 5% með þetta gjald, með heimild um, að það mætti hækka það, þó aldrei meira en í 8%, og það var á tíma, þegar geysilegt ósamræmi var á milli neyzlumjólkurverðs og verðs fyrir vinnsluafurðir mjólkur. Það sýnist því ákaflega frekt í sakirnar farið að ákveða þetta gjald tvöfalt hærra en l. upphaflega ákváðu 1936 og miklu hærra en það hámark, sem þá var leyft allra mest.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að svo komnu, en vil aðeins óska þess, að hv. d. vildi senda þetta frv. áfram til 2. umr. og hv. landbn. En það hefur komizt einkennileg villa inn í fyrirsögn frv., sem ég veit ekki, hvort komizt hefur inn í handriti eða í prentun. Frv. er látið heita: „Frv. til l. um breyt, á l. nr. 66 31. des. 1937, um breyting á l. nr. 1 7. jan. 1935, um meðferð og sölu mjólkur og mjólkurafurða“, í staðinn fyrir ,að l. þessi frá 1935 heita „Lög um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o.fl.“ Ég vil skjóta því til hv. n., sem væntanlega fæa þetta frv. til meðferðar, að ég býst við, að hægt sé að leiðrétta þetta í prentun.