02.05.1942
Efri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

80. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég þakka hv. frsm. fyrir þessar upplýsingar og rengi hann að sjálfsögðu ekki. Hins vegar er ljóst, að þarna er fyrst og fremst um tölulega endurskoðun að ræða, þannig að ekki sé um gagnrýni að ræða, ef reikningarnir eru reikningslega réttir. En endurskoðendur, sem eru kjörnir samkv. l., hafa ekki aðeins á hendi tölulega endurskoðun, heldur líka gagnrýni um gang fyrirtækisins, sem um er að ræða.

Mér skildist hv. frsm. ekki fráhverfur því, að í l. væri ákvæði um kosningu endurskoðenda. Honum er kunnugt um, að í seinni tíð hafa komið fram óánægjuraddir um alla ráðsmennsku mjólkursölun. Ef þær eru óréttmætar, er hægt að kveða þær niður með því að hafa kritíska endurskoðendur. Ég vil mælast til, að það komi í ljós vilji þm. um það, hvort ekki sé rétt að fresta málinu og setja inn þetta ákvæði.