09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Ég vænti þess, að bæði hæstv. ráðh. og hv. þdm. hafi tekið eftir því, að þessi till. okkar er alveg tímabundin. Það er aðeins fyrir árið 1942, sem hún talar um þessar uppbætur. Líka vænti ég þess, að hv. þdm. sjái það, að hér er alls ekki verið að raska launakerfinu, heldur er hér einungis um að ræða ákveðnar uppbætur til allra starfsmanna ríkisins. Ef raska ætti launakerfinu, þá þyrfti að sjálfsögðu miklu víðtækari aðgerða við en þessi brtt. gerir ráð fyrir.

Ég er alveg viss um, að hvorki verkamenn né aðrir muni sjá neitt eftir því, þó þessir menn, em eru í föstum stöðum, fengju einhverja uppbót, og ég hygg, að þeir hafi ekki komið fram með þær kröfur að lækka laun starfsmanna ríkisins, jafnvel þó að illa áraði.

Það má vel vera, að einhverjir af starfsmönnum ríkisins komist af án þess að fá þessar uppbætur, en ég hygg, að mikill meiri hluti starfsmanna ríkis og bæja sé það lágt launaður, með 300–400 kr. í grunnkaup, að þeir geti tæplega komizt af í þeirri dýrtíð, sem nú er í landinu og að flestra dómi er miklu hærri en vísitalan gefur hugmynd um. En það er vitanlega vegna þeirra lægst launuðu aðallega, sem við leggjum fram þessa till.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að starfsmenn ríkis og bæja eru yfirleitt í fastri og tryggri atvinnu, en það, sem þar kemur á móti, er, að þegar illa árar, þá eru það venjulega þessir menn, sem verða að bera mikinn hluta af skattabyrðunum til ríkis og bæja, a.m.k. var það svo á síðustu krepputímum, þegar skattstiginn var hækkaður, að þá kom það þyngst niður á þessum mönnum, sem höfðu lægstu tekjurnar. Þannig er það bæði hér í Reykjavík og úti á landi, að þessir menn verða töluvert hart úti. Það er þess vegna ekki óeðlilegt, að þeir óski eftir að fá einhverjar uppbætur nú til jafns við aðra, a.m.k., þegar árferðið er jafngott og nú er. Með þessari till. okkar er líka til þess ætlazt, að þær verði hærri til þeirra, sem eru í lægri launaflokkunum.