09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

125. mál, verðlagsuppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég skal játa, að ég hafi ekki tekið eftir því, að þessar uppbætur eru miðaðar við árið 1942 aðeins. Till. var útbýtt á þessum fundi, og hún var ekki með dagskrárskjölunum, sem ég fékk, svo að ég veitti þessu ekki athygli. En ég skal játa, að það breytir náttúrlega málinu nokkuð. Og mér finnst þá, að komið gæti til athugunar, hvort ekki væi•i réttara að greiða slíka uppbót á annan hátt heldur en að blanda henni saman við regluleg mánaðarlaun, t.d. að greiða hana í einu lagi um áramót. g held, að reynslan yrði sú, ef greiða ætti þetta með mánaðarlaunum, að mönaum yrði það á að auka sinar þarfir í hlutfalli við þær mánaðarlegu greiðslur, sem þeir fá. Og ef svo ætti að svipta þá þessum aukatekjum á áramótum, þá yrði það miklu tilfinnanlegra en ella. Hins vegar mundi uppbót, sem greidd yrði á áramótum, verða ákaflega kærkomin og ef til vill hagfelldari þeim, sem fengju hana, heldur en bein hækkun á mánaðarlaun.

Það var ekki mín meining að leggja beinlínis á móti því, að eitthvað slíkt yrði gert, sem hér er farið fram á. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, sem ég sagði áðan, um aðstöðu opinberra starfsmanna yfirleitt gagnvart öðrum borgurum, að þeirra kjör eru að því leyti betri, að þeir hafa trygga afkomu, það sem það nær, í stað þess að aðrir eiga allt sitt undir árferði. Og ég veit það, að ef þeir verða látnir fylgja með á þennan hátt, sem hér er fitjað upp á, að fá auknar tekjur vegna góðæris, þá styrkir það líka kröfuna um, að þeir verði látnir bera byrðarnar, þegar verr árar.

Hv. 2. landsk. vék að því, að opinberar stofnanir væru í nokkurri hættu með að missa starfskrafta í samkeppninni, sem nú á sér stað við atvinnulífið. Ég geri ráð fyrir, að ákaflega margir opinberir starfsmenn skoði huga sinn um það, hvort þeir eigi að sleppa því, sem þeir eiga nokkurn veginn víst, fyrir augnabliksgróða, sem kannske á ekki fyrir sér að standa yfir nema skamma stund. Þess vegna er ég ekki svo ákaflega hræddur un, að opinberar stofnanir muni líða mikið við þessa samkeppni á þann hátt.