22.05.1942
Neðri deild: 65. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

*Einar Olgeirsson:

Ég verð að segja það, að mig langar til að fá meiri upplýsingar um þetta mál, sem hér liggur fyrir. Hér er lagt til, að ríkið selji hluta úr landi, sem það á. Og ég get ekki séð, eftir því, sem hér fylgir með, að það séu nein sérstök rök, sem máli með því, að ríkið sé að selja þetta. Hér er um það að ræða að selja í hendur einstakra manna ríkiseign. En nýlega, þegar verið var að ræða um það hér á hæstv. Alþ. að selja Siglufjarðarkaupstað lóðina, sem bærinn er byggður á, eða Hvanneyrarland, þá var það sérstaklega sett í l., að Siglufjarðarkaupstaður mætti ekki selja aftur neitt af þessum lóðum, sem var gert til þess að tryggja, að það opinbera ætti þó lóðirnar. Þar var þá þessi regla innleidd. Siglufjarðarbæ er bannað með l. að selja lóðir undir síldarverksmiðjur t.d. og annað slíkt. Ég sé nú ekki, að hæstv. Alþ., sem hefur sett þessa reglu, sem að mörgu leyti er réttlát, geti farið strax á eftir að samþ. að selja lóðir, sem ríkið sjálft á, þó að undir síldarverksmiðjur sé. Ég get ekki séð, hvaða ástæða eða ástæður mæla með því, að það sleppi þarna sinni eign í hendur einstakra manna. Ég álít, að allt öðru máli væri að gegna, ef ætti að selja þessar lóðir einhverju sveitarfélagi. Ég álít því, að það þurfi að færa einhver meiri rök fyrir þessu máli heldur en gert hefur verið, til þess að það megi teljast rétt að samþ. það. Það, sem kann að vera helztu rök fyrir því að selja þetta land, er það, að þarna eigi að byggja síldarverksmiðju. En ég man það, að farið var fram á það af Siglufjarðarbæ, áður en stríðið byrjaði, að fá að reisa nýtízku síldarverksmiðju á lóð, sem bærinn átti sjálfur, í staðinn fyrir gamla, úrelta verksmiðju, sem þar er. Þetta var bókstaflega hindrað af ríkisstjórninni, og með því var útveginum á Íslandi bakað stórtjón, og þó sérstaklega Siglufjarðarbæ. há þurfti ekki annað að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur en að segja eitt já til þess að bærinn mætti byggja þessa síldarverksmiðju. Það var hægt að fá lán til þess, og það var til lóðin undir hana, þannig að ekki þurfti að fá hana. Það var allt til reiðu.

Hvers konar réttlæti er það, ef ríkið fer hér að selja part úr þjóðjörð einstökum mönnum til þess að reisa síldarverksmiðju á, en bæ eins og Siglufirði er neitað um það fyrir nokkrum árum að fá leyfi til að reisa fullkomna síldarverksmiðju á sinni eigin lóð? Ég sé ekkert samræmi í svona aðgerðum. Og ég veit ekki, hvers konar aðfarir það væru að fara að gefa þannig einstaklingum slík sérstök kjör að selja þeim þjóðjarðir til þess að koma upp síldarverksmiðjum hér og þar, en neita því opinbera um að fá að koma upp síldarverksmiðjum á sínum eigin lóðum. Mér þykir þetta þess vegna mjög einkennilegt. Ég get a.m.k. alls ekki séð, að það sé nokkur ástæða til að samþ. svona frv., án þess að nefnd einu sinni leggi fram um það nokkurt prentað álit. Það hefur engu áliti um þetta mál enn verið útbýtt. Og ég vil algerlega mótmæla slíkri afgreiðslu.