22.05.1942
Neðri deild: 65. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

*Einar Olgeirsson:

Ég sé á þeim fylgiskjölum, sem fylgja þessu frv., að þar er rætt um land, sem þessir tveir umræddu útgerðarmenn hafa keypt áður af Árneshreppi, land, sem ríkisstjórnin hefur selt þessum hreppi. Og þessir útgerðarmenn fara nú fram á að fá meira land í viðbót og fara fram á það við ríkið, að það selji þeim beint þetta land.

Nú vil ég biðja hv. þm. að athuga, hvaða samræmi er á milli þess, sem verið er að gera á þessu háa Alþ. Það var verið að samþ. það fyrir nokkrum dögum að selja Siglufjarðarbæ Hvanneyrareignina, og því voru látin fylgja þau skilyrði, að bærinn mætti ekki selja aftur neitt af þessu landi. Hér liggur fyrir, að með 1. nr. 18 frá 13. janúar 1938 var ríkisstjórninni heimilað að selja Árneshreppi part úr jörðinni Eyri við Ingólfsfjörð. Þá var ríkissjóði heimilað að selja einum hreppi ákveðið land, sem, ríkið átti. Hreppurinn hefur svo selt einstökum mönnum þetta land. Þetta er í ósamræmi við þá reglu, sem Alþ. hefur verið að innleiða nú með l. um heimild til að selja Siglufjarðarkaupstað Hvanneyrareignina. Þessum tveimur mönnum hefur hins vegar ekki þótt nóg þetta land, sem þeir fengu keypt af fyrrverandi eign ríkisins þarna. Þeir fara því fram á að fá land í viðbót og vilja nú fá það þannig, að ríkið selji þeim það beint. Er það í samræmi við það „princip“, sem fylgt var við samþykkt heimildarinnar til að selja Siglufjarðarbæ Hvanneyrareignina, að ríkið selji þessum mönnum þetta land, sem þeir vilja fá? Ég álít, að það sé ekki í samræmi hvort við annað. Og ég get ekki séð, hver nauðsyn er fyrir þessa útgerðarmenn að fá eignarhald á þessu landi. Eru þeir of góðir til að gera samning um leigu á þessu landi um svo eða svo langan tíma? Þeir hóta, að mér skilst, að byggja ekki síldarverksmiðju, ef þeir fá ekki þetta land. Látum þá um það. Ég býst við, að það verði hægt að fá menn til þess að byggja síldarverksmiðju. Það hefur ekki staðið á því undanfarin ár að fá menn til þess, heldur á ríkisstj. um að veita heimild til þess. Ég get ekki heldur ann ð séð en að ríkið sjálft geti ráðizt í eitthvað þess háttar. Ég get ekki séð, að ríkið þurfi að láta einstaka menn setja sér stólinn fyrir dyrnar um slík mál sem þetta, þannig að þeir segi: „Ef við ekki fáum þetta, byggjum við ekki.“ Ég held, að það sé alveg eins hægt að semja við þessa menn um leigu á þessu landi Eyrar, án þess að selja af jörðinni, eins og að selja hluta úr landi þessarar jarðar.