25.02.1942
Efri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég skal vera fáorður. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar hans um vegabréfin. Þó að orð hans væru ekki tæmandi um inntak þessa frv., gat ég skilið, hvað undir bjó. En hvers vegna láðist ríkisstjórninni að gera þessar ráðstafanir á haustþinginu 1941? hoftárásarhættan hefur í engu aukizt síðan, og þá var eigi minna tilefni til slíkra ráðstafana en nú. — En betra seint en aldrei. — En þá vil ég spyrja: Ef vegabréf eru nauðsynleg í Reykjavík og næsta nágrenni með tilliti til loftárásarhættu, hvers vegna eru þau ekki álitin nauðsynleg annars staðar á landinu? Ég hygg hins vegar, að til loftárása geti komið viða úti um land, engu síður en hér í Reykjavík, og þá eru slíkar ráðstafanir sem þessar ekki síður nauðsynlegar þar en hér.

Að öðru leyti skal ég engan veginn draga í efa réttmæti þeirrar fullyrðingar hæstv. forsrh,. að nauðsynlegt sé, ef til loftárása kynni að koma, að þekkja fallna menn og særða og þá, sem kunna að flýja heimili sin. Við hitt málið hef ég lýst fylgi mínu, og mun ég ekki fjölyrða um það. Ég tel siðferðíslögreglu vera til bóta, um mæli í því skyni gegnir kannske nokkuð öðru máli. Skal þó ekki dregið í efa, að þau séu nauðsynleg. Hins vegar sé ég enga ástæðu til þess að hafa þau uppi í sveit. Ég hefði hins vegar talið hyggilegast, að slík hæli væru reist í næsta nágrenni Reykjavíkur og heimilislausar stúlkur ættu þar jafnan athvarf. Hæstv. forsrh. gat hins vegar ekki svarað fyrirspurn minni um kostnað, er af þessum ráðstöfunum leiðir, og er kannske varla við því að búast á þessu stigi málsins. Mér skilst, að nú þegar séu komnir dómendur í þessum málum í öllum bæjum og sveitum. Auk þess mun óhjákvæmilegt að launa betur en nú er gert barnaverndunar- og skólanefndir, sökum hins aukna starfs, sem þessum aðilum er ætla að inna af hendi.

Af þessu öllu hlýtur að leiða mikinn kostnað. En það er nú svo, að nauðsynlegar framkvæmdir ber að inna af hendi á þann hátt, að bezt komi að notum, en sé þó um leið eins ódýrt og framast er unnt.

Ég sé ýmsan kostnað við þessar ráðstafanir, sem betur þarf að upplýsa áður en málið er afgreitt úr deildinni. En þar sem ég hef tækifæri til þess að fjalla um málið í nefnd, skal ég ekki á þessu stigi málsins lengja umr. frekar.