22.05.1942
Efri deild: 66. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að fara að karpa um þetta mál, en út af því, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, þá finnst mér, eins og hv. 9. landsk., að það væri eðlilegt og þinglegt, að málið færi til n. En ég er jafnviss um, að þótt málið væri afgr. í n., þá mundi það enga frekari athugun færa inn í d., því að það er sennilegt, þar sem nú er svo stuttur tími eftir af þinginu, að n. mundi ekkert gera nema lesa yfir þá grg., sem fylgir frv., og kannske ræða við þá menn, sem hafa lagt málið fyrir, og býst ég ekki við, að þeir geti gefið frekari upplýsingar en gert er í grg. frv. Allshn. Nd. fékk málið til meðferðar og mælti með því, og m. þm. þeirrar d. hafa séð nauðsyn á því, að ekki verði komið í veg fyrir, að reist verði þarna nýtízku verksmiðja. Eins og tekið er fram í frv., hefur Eyrarhreppur á sínum tíma fengið af þessari jörð ákveðna spildu, sem nota átti undir verksmiðju, en þegar það hefur verið gert, hefur verið búizt við, að verksmiðjan yrði minni en raun sýnir nú, að hún verður, eins og eðlilegt er, því að síldarverksmiðjur hafa farið hraðstækkandi á síðustu árum, og þegar vitað er, að þessi nýja verksmiðja kemst ekki fyrir á þessari nýju lóð, þá er eðlilegt, að þessi hreppur mæli með, að nægilega stórt viðbótarland fáist. Nd. hefur tekið út úr l., að þetta land skuli vera selt til einstakra manna, og tel ég það rétt, og hefði það verið það eina, sem ég hefði haft að athuga við frv., ef beinlinis hefði verið tekið fram í l., að selja skyldi einstökum mönnum þetta. Ég tel eðlilegt, að hreppsn. sé selt landið og hún leigi eða selji þeim, sem það þurfa að nota. Það liggur fyrir, hvað á að gera við þetta land. Það er skylda ríkisins að flýta fyrir, að síldarverksmiðjur komist upp. Um nauðsyn þess ætla ég ekki að ræða, en það gleður mig stórum, að nú skuli hafa verið fallið frá þeirri firru, sem var fyrir nokkrum árum, að koma í veg fyrir, að síldarverksmiðjur væru reistar. Mér þykir vænt um, að menn skuli koma hér fram, sem telja sig hafa tíma og tækifæri til og hagnað af að reisa þessa verksmiðju, og að um það verði nú ekki synjað, þó að það hafi verið gert áður.