19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég býst ekki við, að — ég fari langt inn á umr. um þetta mál á þessu stigi, en ég er einn af þeim, sem viðurkenna rétt þegnanna. Að réttur þeirra eigi að vera jafn, ætla ég, að ekki þurfi að deila um. En við vitum, að um það hefur verið deilt í þessu máli, hvort réttur þegnanna til áhrifa á stjórn landsins væri jafn með þeim hætti, að jafnmargir kjósendur stæðu á bak við hvern þm. um land allt, og hafa þar verið færð fram rök svo oft, að ekki er nauðsynlegt að endurtaka þau nú, að þéttbýlið hefur á margap hátt miklu betri aðstöðu til þess að hafa áhrif margvíslega heldur en dreifbýlið, bæði í þessu landi og annars staðar, ekki sízt hér, þar sem dreifbýlið er svo mikið, og margir kjósendur búa á svo afskekktum stöðum, að þeir hafa eingin tækifæri til að hafa áhrif eins og þeir, sem í þéttbýlinu eru og hafa sín flokkssamtök, tæki og tækni til þess að hafa þessi áhrif. Það er þetta, hversu mikils á að meta þetta, þegar talað er um hinn jafna rétt þegnanna, sem stöðugt hefur valdið verulegum ágreiningi og er líklegt, að mani valda honum enn þá. En um jafnan rétt þegnanna til þess að hafa áhrif á stjórn landsins er ekki deilt.

Það er tvímælalaust hægt að færa fram ýmsar tölur frá kosningum, sem, þegar litið er á þær einar, sýna, að því er virðist, að rök þeirra, sem fylgja þessu frv., séu á sterkum grundvelli reist. En það er einu sinni þannig, ef við lítum til þeirra landa, sem nú berjast fyrir lýðræðinu fyrst og fremst, Bandaríkjanna og Englands. þá er þar ekki talið nauðsynlegt til þess að varðveita og viðhalda lýðræðinu, hvorki á þessum tímum né öðrum, að koma á höfðatölureglunni, því að ef nokkuð er, þá er enn fjær, að svo sé í þessum tveimur höfuðtindum lýðræðisins, heldur en hér á landi. En við Íslendingar erum svo „moderne“ þjóð, að við þurfum að skera allt eftir reglustriku og reikna allt eftir tölum og höldum, að það sé bezta lýðræðið. En það eru vissulega mörg atriði í þessu máli, ef farið er að ræða það á viðtækum grundvelli, sem koma til athugunar, fleiri en tölurnar einar, og án þess að ganga langt inn á þær umr., sem áður hafa farið fram um þetta mál, sem ég tók ekki nema mjög lítinn þátt í, þá er það auðsætt mál, að ekki er til neins að færa það fram sem rök, að þær breyt., sem hér á að gera, raski ekki hlutföllunum milli sveita og kaupstaða. Það má með einhverjum rétti segja, að hlutfallskosningar geri það ekki, en það má færa jafnsterk rök fyrir, að þær geri það. En ef á að fara að fjölga þm., eins og hér er gert ráð fyrir, þá raskist hlutfallið vitanlega stórlega við það.

Þær breyt., sem hér er lagt, til að gera, fara að vísu í sömu átt og þær breyt., sem áður voru gerðar á stjórnskipunarl. og stjskr., en ég hygg, að flestir séu samimála um, að sú stjskr., eins og frá henni var gengið, og sú stefna, sem þar v°ar tekin upp, bæði að efni og öllu formi, sé þannig, að fæstir séu ánægðir með — hana, og þjóðin er yfirleitt alls ekki ánægð með hana. Þetta fyrirkomulag með uppbótarþm. o.s.frv. hefur alls ekki reynzt vel. Það hefur reynzt illa. Og ég álít, að þegar við erum að lappa upp á það fyrirkomulag, sem við búum nú við, þá mundi sú stjskr., sem við þá mundum fá, verða enn þá meira óbermi, ef ég má nota það orð, heldur en sú, sem við höfum núna, eins og það að ætla sér að fjölga þm. upp í 54. Við getum verið þess fullvissir, hver einasti þm. í d., að það er alveg á móti skoðun þjóðarinnar, að rétt sé að fjölga þm. frá því, sem nú er. Það er vitað, að fjölgun þm., sem átt hefur sér stað, hefur sízt af öllu orðið til þess að gera starf þingsins betra, nema síður sé, og það er áreiðanlega ekki í samræmi við vilja þjóðarinnar eða til bóta á okkar stjórnarkerfi.

En það, sem ég tel, að skipti einna mestu máli í sambandi við þetta allt, eins og nú standa sakir, — og þótt ekki sé óeðlilegt, að þetta sé rætt, þá geng ég fyrir þá sök ekki langt í að ræða það, — að á slíkum tímum sem þessum á enginn að 1át,a sér detta í hug að hreyfa við stjórnarskrá ríkisins. Ég býst við, að megi leita viða á þeim tímum, sem nú eru, til þess að finna dæmi þess, að þjóðþing sé að breyta stjórnarskrá sinni, og þó sérstaklega, ef það er breyt., sem veldur stórkostlegum flokkspólitískum deilum, og það þarfasta, sem þjóðþing hafi að vinna nú, það sé að breyta stjskr. ríkisins, Það er mikil breyt. og sýnist vera nokkuð ör, sem virðist hafa gerzt á hugsanagangi okkar þm. hér á Alþ. Það er ekki liðið enn þá ár, síðan við töluðum um, að útlitið væri svo ískyggilegt, að við værum sammála um, svo að segja sem einn maður, að fresta kosningum. Ég var einn af þeim, sem beittu sér fyrir, að — það væri gert, og ég er sannfærður um, að það var efnislega rétt að gera það. Við vitum einnig, þó að við vitum lítið um þær hættur, sem yfir okkur kunna að vofa eða höfum ástæðu til að ætla, eftir því hvernig styrjöldin stendur, að hættan, sem yfir okkur vofir margvíslega sé, — til þess að taka ekki of djúpt í árinni —, a.m.k. ekki minni en hún var, þegar við vorum sammála um, svo að segja sem einn maður, að fresta kosningum til þess að komast hjá því að þurfa að deila. Ég var sammála um, að við áttum að fresta þessum kosningum. Ég er sannfærður um, að þeir, sem beittu sér fyrir því, höfðu efnislega rétt fyrir sér. En okkur yfirsást um eitt atriði, yfirsást um það, að flokkarnir mundu ekki bera gæfu til að hafa þann þroska, sem til þess þurfti, að það samkomulag gæti staðið og yrði framkvæmt, eins og til var ætlazt. Og satt að segja verðum við að viðurkenna, — það er ekki hægt að komast hjá því —, að þessi frestun á kosningum hefur orðið okkur öllum saman, sem stóðum að því máli, á vissan hátt til minnkunar. Það var þörf á að fresta kosningum, bæði bæjarstjórnarkosningum þeim, sem nú hafa farið fram, og eins alþingiskosningum, sem eiga að fara fram í vor, en þrátt fyrir þessa þörf gátum við ekki haldið þessu samkomulagi, og það er það, sem er til minnkunar fyrir flokkana. Fyrir þetta er nú svo komið, að mikið er deilt í blöðum, eins mikið og nokkru sinni fyrr. Á Alþ. er ekki mikið deilt enn þá, en maður veit, að þar logar talsvert undir, og lítur út fyrir, að við förum eftir allt saman út í alþingiskosningar í vor, þegar útlitið er, eins og ég sagði áðan, sízt af öllu betra en það var, þegar við töldum nauðsynlegt að fresta kosningunum. En ég tel, að ekki verði hjá því komizt, eins og nú er farið með þetta allt. Nú erum við komnir það langt frá þeim ákvörðunum, sem við tókum, þegar við frestuðum kosningum í fyrra, að við teljum okkur fært að innleiða deilur um, hvernig stjórnarskipunin eigi að vera. Það er ekki nóg, að við göngum út í kosningar, þegar ástandið er sízt af öllu betra en þegar við töldum nauðsynlegt að fresta kosningunum, heldur erum við komnir það langt, að við teljum okkur fært að innleiða deilur í sambandi við störf okkar hér á Alþ. og í sambandi við kosningar.

Eitt var það, sem borið var fram sem rök af mjög mörgum, þegar sjálfstæðismálið var rætt á síðasta reglulegu Alþ., en það var, að tæplega þætti fært að taka fullnaðarákvörðun í því máli m.a. vegna þess, að ekki væri hægt og ekki rétt, eins og nú standa sakir, að gera stjórnarskrárbreyt., sem ákvæði framtíðarskipulag ríkisins, m.a. vegna þess, að það gæti valdið deilum og mundi valda deilum einmitt af því, að líklegt væri, að þetta mál mundi dragast þar inn í, og í annan stað vegna þess, sem að sjálfsögðu kemur til athugunar í sambandi við þetta mál, að við eins og margir aðrir vitum svo örlítið um, hvernig það stjórnskipulag verður, sem við búum við eftir styrjöldina. Við vitum aðeins, að það verður stórkostleg breyt. frá því, sem nú er. En nú telja menn sér fært að taka upp stjórnarskrárbreyt., án þess að sjálfstæðismálið verði var nefnt á nafn. Ég get satt að segja hugsað mér, að sumir af sjálfstæðismönnunum í þessu landi, — sumir af þeim, sem talið hafa nauðsynlegt að leysa þetta mál nú þegar, en breyt. á stjórnarskránni, sem ískyggilegt þótti að ráðast í nú, stóð þar í vegi, — geri ráð fyrir, að þær kröfur hljóti að koma fram í sambandi við þetta mál. Og ég geri ráð fyrir, að þeir flytji það fram sem rök, að þeim þyki ekki viðkunnanlegt, að stjórnarskránni sé breytt, án þess að minnzt sé á að breyta þeim gr., sem lægi beinast við að breyta, eins og nú er málum komið. Allar fremstu gr. í stjskr. eiga að standa. óbreyttar. Ég býst við, að mörgum þyki þetta einkennilegt og óbein yfirlýsing út á við. Og það, sem mér finnst enn fremur, að geri ákaflega einkennilegt, til viðbótar öllu þessu, að taka upp þetta mál, er það, að það hefur áreiðanlega aldrei skipt minna máli en nú, hvað marga fulltrúa hver flokkur hefur hér á þingi, og það af þeirri einföldu ástæðu, að það eru engar minnstu líkur til, þótt stjskr. yrði breytt, að neinn flokkur mundi fá hér meirihlutavald, og enginn einn flokkur vill taka að sér að stjórna landinu, eins og ástandið er nú og verður næsta ár eða næstu árin. Ábyrgðin er allt of mikil til þess, að nokkur fl. mundi ráðast í að gera það. Og nú eru sterkar raddir um það, þó að nú fari tveir flokkar með völd, sem hafa yfirgnæfandi meir í hluta Alþ., að stofnað verði til víðtækari samvinnu, og það er vitað mál, að fyrst um sinn verður að stjórna af fleirum en einum flokki. Hver einasti þm. finnur og veit, að aldrei hefur verið gert eins lítið af því á Alþ. að telja saman, hvað marga fulltrúa hver flokkur hafi, og einmitt nú, og það á ekki að muna það nema sem minnast. Þess vegna er þessi deila, eins og nú standa sakir, ákaflega ófrjó deila og nánast sagt deila til þess að deila.

Sósíalistar hafa bætt töluvert fylgi sitt í bæjarstjórnarkosningunum, en jafnaðarmenn aðeins staðið í stað. Svo er mælt, að einn af fultrúum í öðrum þessara flokka hafi átt að segja: „Guði sé lof, að við fengum ekki meiri hluta. Þeir treystust ekki til að vinna saman, sem þeir hefðu mátt til með, ef þeir hefðu fengið meiri hl. í bæjarstj. Hvort þetta er satt eða ekki, er mér ekki kunnugt um. En sannleikurinn er sá, að eins og útlitið er nú og eins og það virðist alltaf fara versnandi, hygg ég, að við höfum um annað þarfara að hugsa og tala heldur en að deila um það, hve marga fulltrúa hver flokkur eigi á Alþ. Má í þessu sambandi benda á, að verði þessar breyt. að l., munu þær ekki hafa áhrif á kosningarnar, er eiga að fara fram í vor að öllu sjálfráðu. En þær gera annað. Sá meiri hl., sem sitja mundi Alþ. eftir næstu kosningar, mundi gera þessar breyt. að l., að stjórnarskrá fyrir okkar þjóðfélag. En hitt er fullvíst, að þegar sú breyt. er komin á, yrðu kosningar aftur hitt vorið. Það er vitað mál, að um leið og þessi breyt. er orðin í landinu, þá reyna þeir fl., sem telja sig fá betri aðstöðu til kosninga fyrir þessa stjskr., að stuðla að því með vinnubrögðum sínum hér á Alþ., að kosningar fari fram að nýju næsta haust eða vorið 1943 til þess að njóta uppskerunnar af þeim breyt., sem þeim hefur tekizt að koma í gegn. Þá yrðu stærstu flokkar að starfa saman í sumar ag meðan kosningar færu fram, hvort sem það yrði í haust eða vorið 1943. Ef ætti á annað borð að gera þessa breyt., yrði í sambandi við hana að koma á starfhæfri stj., meðan breyt. er að komast á og eftir að hún hefur verið gerð. Ég hef alltaf verið óánægður með þessa stjskr., og mér dettur ekki í hug að álita, að ekki þurfi að endurskoða hana, bæði þetta atriði og mörg önnur. En tímarnir, sem við lifum nú á, eru þeir langverstu, sem hægt er að hugsa sér. En við vitum, að þjóðirnar eru byrjaðar á endurbótunn, ekki með því að breyta stjskr. sínum, heldur fyrir tilstilli sinna stj., sem skipaðar eru beztu mönnum, og þær eru byrjaðar að rannsaka, hvers konar stjórnarkerfi þær eigi að hafa að þessari styrjöld lokinni. Og við hljótum að sjá, eftir þeirri reynslu, sem við höfum af styrjöldum og breyt. þeim, sem þær hafa valdið, og eftir því, sem sjá má af blöðum þeirra þjóða, sem berjast fyrir lýðræðinu, að stjórnarkerfi þjóðánna hlýtur að breytast upp úr þessari styrjöld. Það er því miklu nær fyrir okkur að byrja nú á því að velja okkur menn til að kynna sér og rannsaka þá strauma, sem nú eru uppi, og byrja á undirbúningi að þeirri stjskr., sem við ætlum að hafa eftir þessa styrjöld, heldur en að hefja deilur um breyt. þær, sem hér liggja fyrir. Við vitum reyndar lítið um, hvernig styrjöldin breytist. Við skyldum segja, að Rússar yrðu sérstaklega sterkir og kæmust alla leið vestur að Atlantshafi, og þá þætti mörgum trúlegt, að til átaka kæmi milli Englands og Rússlands. Hvor þessara þjóða yrði þá sterkari, vitum við lítið um. Svo er þriðji möguleikinn: Að Þjóðverjar sigri, og þá er eins víst, að aðrir en við ráði, hvaða stjórnarkerfi við eigum að hafa. Það er vitað mál, að hvernig sem þessi styrjöld fer, þá er hún barátta, og eins og flest barátta er, barátta milli tveggja öfga. Það getur aldrei öðruvísi farið en sú stefna, sem sigrar, drekki meira eða minna í sig af þeirri stefnu, sem undir verður í baráttunni. Það kann að vera, að sumum hv. þm. þyki þetta nokkuð losaralegir smátónar, en við erum nú búnir að sjá svo mikið, að við vitum vel, að lýðræðið í Þýzkalandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu er ekki liðið undir lok af því, að það hafi komið stjórnarkerfi svífandi niður úr geimnum og setzt niður á þessi lönd. Nei, lýðræði þessara landa leið undir lok af því, að það var ekki fært um að fara með völdin: Og tvímælalaust verður það eitt af aðalhlutverkum lýðræðisins eftir styrjöldina. án þess að beita hörku og takmarka einstaklingsfrelsið (sem nú tíðkast í einræðisríkjunum), að geta styrkt sjálft sig með því skipulagi og þeim aga (disciplin), sem einræðisríkin hafa nú yfir að ráða. Og við verðum eins og aðrir, þegar við endurskipuleggjum okkar stjórnarskrá, að losa okkur við þann glundroða (Kaos), sem er meira og meira áberandi í okkar störfum, eins og í öðrum lýðræðislöndum. Mér finnst, satt að segja, að okkur væri bezt að verða sammála um, að n. væri skipuð af Alþ. til þess að rannsaka, hvernig við eigum að breyta okkar stjórnskipulagi, og auk þess undirbúa þær breyt., sem gera þarf, þegar við tökum málin formlega í okkar hendur af Dönum; nefnd, sem undirbyggi þá stjskr., sem við gætum búið við að styrjöldinni lokinni. Það ætti frekar við heldur en halda uppi deilum um það, hvort við eigum að bæta við 5 þm., hafa 54 í staðinn fyrir 49, eins og það sé mest aðkallandi nú, þegar ekki eru nokkrar minnstu líkur til, að það verði betra, og mundi aðeins skapa meiri flokkadrátt á Alþ. Nú þyrftum við umfram allt að gleyma því, fyrir hvaða flokk við höfum umboð og draga sjálfa okkur í dilka samkvæmt því.

Ég vil gera það að till. minni, að umr. verði nú frestað, og að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því, að skipuð verði sérstök n. innan Alþ., sem fjalli um þetta mál. Það mun vera venja, þegar slík mál sem þetta koma fyrir. Ég hygg, að nú þegar sé hafinn undirbúningur að kosningu þessarar nefndar.