24.04.1942
Efri deild: 40. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

9. mál, eftirlit með ungmennum o.fl.

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti ! Þetta frv. er samhljóða brbl., sem ríkisstj. gaf út 9. des. s.l.

Allshn. hefur haft þetta frv. lengi til meðferðar og lengur en hún var ánægð með. Ástæðan til þess var fyrst og fremst sú, að hún taldi nauðsynlegt að leita sér ýmissa upplýsinga og gagna um þetta frv., og það stóð nokkuð lengi á að fá svör við þeim fyrirspurnum, sem n. hafði gefið út. Hún fékk umsögn um þetta bæði frá barnaverndarráði og prófessor í refsirétti við háskólann, Ísleifi Árnasyni. Auk þess taldi n., að hér væri svo mikið nýmæli á ferðinni, a henni væri nauðsyn á að glöggva sig vel á málinu, áður en hún gerði sínar till. um breyt. á því.

Ef maður her þetta frv. saman við þá löggjöf, sem nú er til um sams konar efni, um afskipti þess opinbera af börnum og unglingum, verður maður fljótt var við, að hér er um að ræða víðtækar breyt. frá þeim l. Aðallöggjöfin fram til þessa er l. um barnavernd, sem sett voru 1932, og var ekkert tilsvarandi til í l. áður. Með þessum l. var gert ráð fyrir að skipa sérstaka barnaverndarn. fyrir kaupstaði, sem hefði eftirlit með börnum allt til 16 ára aldurs; annars staðar var skólan. falið sama starf. Þetta eftirlit með börnum var aðallega í því fólgið að gæta hagsmuna barna gagnvart foreldrum og forráðamönnum þeirra, gæta þess, að þau liðu ekki skort, væri ekki ofþjakað með of þungri vinnu, yrðu ekki fyrir óhollum áhrifum siðferðilega á heimilunum o.s.frv. Í þessum l. var barnaverndarn. og skólan. gefið nokkurt vald til þess að ráðstafa börnum innan 16 ára, taka foreldraráðin af foreldrum, ef þau að dómi n. eru ekki fær um að ala börnin upp, og eins ef einhver maður dvelur á heimilinu, sem ætla má, að hafi slæm áhrif á börnin siðferðislega.

Í þessum l., sem hér er ætlazt til, að verði samþ., er fyrst og fremst gert ráð fyrir, að eftirlit með uppeldi og hegðun barna og unglinga skuli ekki ná til 16 ára, heldur til 20 ára aldurs. Auk þess er gert ráð fyrir, að barnaverndarn. og skólan. hafi miklu víðtækari afskipti af hegðun og uppeldi en áður. Í 2. gr. eru taldir vissir lestir eða ávirðingar, sem annars eru ekki refsiverðar í l., sem barnaverndarn. sérstaklega eigi að líta eftir í fari barna og ungmenna, svo sem lauslæti, drykkjuskapur, slæpingsháttur, óknyttir og aðrir slíkir lestir. Verði n. vör við eitthvað af slíku, á hún fyrst og fremst að telja um fyrir ungmenninu og aðvara foreldra og forráðamenn og reyna þannig á friðsamlegan hátt að koma þessu í betra horf. En ef það tekst ekki, þá má beita hæfilegum uppeldisráðstöfunum við þessi börn or unglinga, vista þau í skóla, koma þeim fyrir á heimilum og auk þess að koma þeim fyrir á sérstökum hælum, sem stj. er heimilt að setja upp í þessu skyni. N. hefur ekki úrskurðarvald um þetta, heldur er gert ráð fyrir, að settur verði upp sérstakur dómstóll, sem á að dæma um þessi mál. Héraðsdómari hefur forsæti í dóminum, og auk þess eru tveir meðdómendur, sem bæjar- og sveitarstj. kjósa til 4 ára í senn. Greiðist kostnaður við þá úr ríkissjóði. Auk þess sem þessir dómstólar eiga að hafa úrskurðarvald í málum vegna brota a þessum l., þá er líka gert ráð fyrir, að þessir dómstólar dæmi einnig um refsimál, sem höfðuð eru gegn unglingum upp í 20 ára. Úrskurðir þessir eiga ekki að vera bundnir við ákveðinn tíma, heldur gilda um ótiltekinn tíma, þó þannig, að sami dómur getur aftur tekið upp málið til úrskurðar um, að hælisvistar sé ekki lengur þörf. Þó má þessi dómur ekki fara fram úr 3 árum, nema nýr úrskurður sé kveðinn upp, og virðist ekkert til fyrirstöðu samkv. þessum I., að unglingur sé dæmdur á hæli og sá dómur sé framlengdur um 3 ár í senn, og ef úrskurður er kveðinn upp, rétt áður en unglingurinn verður 20 ára, getur þessi hælisvist náð allt til 2 ára aldurs unglingsins. Svo er gert ráð fyrir í 6. gr., að þessum úrskurðum megi áfrýja til hæstaréttar, en þó því aðeins af hálfu aðila eða lögráðamanns hans, að dómsmálaráðuneytið gefi leyfi til slíkrar áfrýjunar. Svo eru ýmis nýmæli eins og um það, að banna megi unglingum að vinna tilgreind störf, ef álitið er, að þau geti verið skaðleg þroska og siðferði þeirra. Loks er gert ráð fyrir, að refsa skuli þeim, er leiða ungmenni út á siðferðislega glapstigu eða leyfa, að saurlífi viðgangist í þeim húsum, sem hlutaðeigandi á yfir að ráða. M.ö.o., þær breyt., sem er ætlazt til, að verði gerðar á gildandi löggjöf, er fyrst og fremst að auka stórkostlega eftirlit barnaverndarn., þar sem nú er ætlazt til, að það nái allt til 20 ára aldurs, auk þess sem þetta starf á að verða miklu víðtækara, því að n. eiga hreint og beint að líta eftir hegðun þessara ungmenna og vanda um við forráðamenn þeirra og þau sjálf, ef þær verða varar við þá misbresti á hegðun þeirra, sem tilgreindir eru í 2. gr. lá er það nýmæli að skipa sérstakan dómstól, og loks eru viðurlög við þessum brotum, sem er frelsisskerðing allvíðtæk, sem getur jafnvel náð allt til 23 ára aldurs.

Í grg. eru ekki tilgreindar aðrar ástæður fyrir frv. en þær, að það sé fram komið vegna þess ástands, seni nú ríkir, og telji stj. því nauðsynlegt að gefa út þessi l. Nú er ekki hægt að álíta, eftir því sem ég þekki til, að drykkjuskapur, slæpingsháttur og óknyttir hafi aukizt svo mjög í seinni tíð, að nauðsynlegt hafi verið þess vegna að grípa til slíkra ráðstafana. Þvert á móti geng ég út frá, að dregið hafi úr slíkum löstum, vegna þess að atvinnuleysi hefur ekkert verið. Unglingarnir hafa meiri kost á að fá sér sómasamlegt lífsviðurværi en þegar atvinnuleysi herjar löndin, svo að það er vafalaust ekki þess vegna, að þessi brbl. hafa verið gefin út. Við þurfum ekki að fana í neinar grafgötur, það er vegna lauslætis, og er þá eðlilega átt þar við kvenþjóðina, að þessi l. hafa verið gefin út. Og þá er spurningin, hver þörf hafi verið að setja þessi l. og hver verður réttaraðstaða þessara ungmenna. Bæði manna meðal og í blöðum og útvarpi hefur verið mikið rætt um þetta ástand, enginn vafi er, að siðferðisástandið hefur beðið mikinn hnekki við, að svo fjölmennt erlent setulið hefur verið í landinu, og það er ekkert nema það, sem mátti við búast. Það er gömul saga, að alls staðar þar, sem fjölmennt setulið er langan tíma, þá hefur það ávallt í för með sér nánari kynni kvenna og setuliðsins heldur en almennt hefur verið talið hollt og sómasamlegt, og hefur oft gengið illa að fá ráðstafanir af hálfu þess opinbera, sem gætu heft þetta eða dregið úr. Fyrir Alþ. liggja engar opinberar skýrslur um, hvernig ástatt sé í þessu efni, en öllum er kunnugt, að hæstv. stj. lét á síðasta ári fara fram rannsókn í þessu sambandi, og hefur verið birt hrafl úr þeirri skýrslu í blöðum. Þessi skýrsla hefur sætt nokkurri gagnrýni bæði af hálfu erlendra hernaðaryfirvalda og eins af hálfu sumra blaða. En hvað um það, enginn vafi er, að ástandið gæti verið betra en það er, og fult þörf er fyrir það opinbera að taka í taumana að svo miklu leyti sem í þess valdi stendur, en þó einkanlega að því er snertir börn og vanþroska unglinga.

Nú má um það deila, hversu langt beri að ganga í þessum efnum. Allshn. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að óheppilegt sé, að þetta eftirlit nái allt til 20 ára aldurs. Í nál. eru færðar fram ástæður fyrir þessu, fyrst og fremst það, að samkv. íslenzkum l. er hver unglingur sjálfráður sinna gerða, þegar hann er orðinn 16 ára. Eftir það hefur hann ráð á að vista sig og þarf yfirleitt ekki að spyrja sína forráðamenn, hvernig hann skuli fara með sitt vinnuafl, og hefur að l. leyfi til að ráðstafa sínum högum eins og honum sýnist innan ramma Iandslaga, og eftir 18 ára aldur hafa konur leyfi til að ganga í hjónaband. N. sýndist alls ekki viðeigandi, að fólk, sem fyrir löngu er búið að fá sjálfræði, sé undir eftirliti barnaverndarn. og skólan. Hitt er annað mál, sem er þess vert, að stj. og þing athugi, hvort það aldurstakmark, sem gert er að skilyrði fyrir sjálfræði, sé ekki of lágt og hvort ekki sé heppilegra að færa það upp, og þá allt upp í 18 ár, og er margt, sem mælir með því, enda er það í samræmi við löggjöf nágrannalandanna, t.d. Danmerkur, þar sem miðað er við 18 ár, en meðan þetta er ekki gert, virðist afar óeðlilegt, að unglingar skuli háðir eftirliti þess opinbera, og það eftir að þeir eru alveg komnir undan yfirráðum foreldra eða forráðamanna.

Þó þykir n. einna varhugaverðast í þessu sambandi að gera starf barnaverndarn. svo víðtækt sem hér er ætlazt til, því að auðvitað verður það miklu meira, eftir því sem fleiri unglingar koma undir eftirlit n. Það er mitt álit, að það geti farið þannig, að þar sem þörfin er mest á eftirliti með börnum og unglingum meðan þeir eru óþroskaðir, þar geti dregið úr því, ef starf barnaverndarn. er gert svo víðtækt sem hér er ætlazt til, auk þess sem eftirlitið verður því erfiðara, því þroskaðri sem unglingarnir eru. Ef framkvæmdin verður slík. að hún verður n. ofvaxin, þá getur það aðeins orðið til þess að gera illt verra í staðinn fyrir að vera til bóta. N. er sem sé þeirrar skoðunar, að börn og unglingar verði fyrst og fremst að fá á heimilunum það uppeldi, sem þau þurfa með. Það er sagt, að án er ills gengis nema heiman hafi, og ég hygg, að grundvöllinn að lífi unga fólksins verði að leggja á heimilunum sjálfum og með þeim áhrifum, sem skólar og kirkja geta haft, og er þar vissulega mikið hlutverk fyrir skóla og kirkju að inna af hendi eins og nú er ástatt í landinu. Ég tel, að afskipti þess opinbera af slíku sé aðeins neyðarráðstöfun, sem er þá allt eins mikið í þágu þjóðfélagsins eins og þeirra unglinga, sem ætlazt er til, að verið sé að bjarga með þessu.

Allshn. hefur því lagt til, að aldurstakmarkið verði fært úr 20 árum niður í 18. Auk þess hefur n. lagt til þá breyt. á dómstólnum, að hann færi eingöngu með þau mál, sem höfðuð eru gegn unglingum fyrir brot á þessum I., en nái ekki til refsimála, sem höfðuð eru gegn unglingum innan 20 ára aldurs, eins og gert er ráð fyrir í frv. N. byggir þetta á því, að eins og kunnugt er hefur legið fyrir þinginu nýlega frv. um breyt. á réttarfari í opinberum málam. Sýnist ekki ástæða til að vera að gera í sambandi við þetta frv. serstakar breyt. um meðferð refsimála í landinu, þar sem ganga má út frá því, að innan skamms verði þetta mál tekið upp aftur og fái sína endanlegu lausn hér á þingi.

Eins og ég gat um áðan, er í frv. gert ráð fyrir, að úrskurðir um vist ungmenna á hælum eða heimilum séu óákveðnir, en megi þó ekki fara fram úr 3 árum. N. þykir fullmikið, að gengið sé út frá, að ekki sé hægt að breyta slíkum úrskurðum fyrr en þrjú ár eru liðin, og vill færa það niður um eitt ár. Virðist n. það sanngjarnara. Sömuleiðis er gert ráð fyrir, að forráðamenn aðila geti ekki krafizt nýs úrskurðar fyrr en eftir eitt ár. N. vill færa það niður í 6 mánuði.

Loks eru í frumv. ákvæði um, að aðeins megi áfrýja þessum úrskurðum af lögráðamanni, ef dómsmálaráðuneytið veitir leyfi til þess. Þetta er brot á þeim réttarprincipum, sem snerta refsimál, að hver maður geti skotið máli sínu til æðri réttar, og sýnist ástæðulaust að veita ekki ungmennum sama rétt, vill þess vegna breyta þessari frvgr. á þann hátt, að ekki þurfi leyfi dómsmr. í hverju tilfelli, sem aðili vill skjóta slíku máli til hæstaréttar.

Loks leggur n. til breyt. við 9. gr., en þar eru ákvæði, sem herða á þeim refsingum, sem áður hafa gilt samkv. refsilögum fyrir að leiða ungmenni innan 21 árs á glapstigu eða láta saurlífi viðgangast í húsum sínum, bifreiðum eða öðrum stöðum, sem menn hafa yfir að ráða. N. finnst full ástæða til, að inn í þetta séu líka tekin skip, sem hlutaðeigandi ræður yfir, því að það getur eins komið fyrir, að slíkt framferði eigi sér þar stað eins og í húsum, og gerir n. því brtt. þar að lútandi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Brtt. eru ekki stórvægilegar nema 1. brtt., sem er um að færa aldurstakmarkið úr 20 árum í 18 og svo að heimila að áfrýja til hæstaréttar, án þess að leyfi dómsmrn. komi til.

Ég vil að lokum geta þess, að í dag hafa n. borizt ný gögn, sem hún hefur ekki haft tíma til að fara yfir. En það í sambandi við 1. brtt., og legg ég því til, að hún verði látin bíða til 3. umr.