24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. 5. þm. Reykv. svaraði einhverju því, sem ég sagði hér út af fyrri ræðu hans um þetta mál. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, svo að ég heyrði ekki alla þessa ræðu hv. þm. í gær. En mér skildist, að hann teldi sig vera í sínum fulla rétti, þegar hann var að ásaka ríkisstj. fyrir að hafa ekki beitt sér fyrir allsherjar endurskoðun stjskr. á þessu þingi, þrátt fyrir samþykktir þær, sem gerðar voru á reglulega. Alþ. 1941. Ef hann hefði sannað þetta, að þessar ásakanir hefðu verið réttmætar, var ekkert við þessu að segja. En mér fannst bresta mjög mikið á, að hann sannaði nokkuð í þá átt, því að samþykktir þingsins 1941 standa enn í fullu gildi. Og þó að þessi hv.- þm. segi nú, að þessar samþykktir — eins og hann sagði í gær — væru bara tóm vitleysa, þá er ekki eingöngu ríkisstj. um það að saka. Að vísu er rétt, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þessar samþ. voru gerðar. En hæstv. Alþ. féll;t í till. ríkisstj. í þessu efni, og þar á meðal þessi hv. þm., svo að það er þá a.m.k. sameiginleg vitleysa ríkisstj. og hins háa Alþ., sem þarna hefur verið gerð, ef um vitleysu hefur verið að ræða. Hins vegar, ef á að fara inn á þá braut að víta ríkisstj. fyrir það, að hún telur ekki rétt, að fótumtroða samþykktir Alþ., þá er ég hræddur um, að komið sé út á nokkuð hála braut. Og það er a.m.k. dálítið harkalegt að heyra slíkar raddir úr hópi þm., staðhæfingar um, að ríkisstj. eigi að hafa að engu það, sem þingið samþ. Það má vel vera, að menn sjái, að það sé órökstutt sumt, sem þingið gerir. En eigi að síður er ríkisstj. skyldug til þess að brjóta ekki í bága við þær samþykktir, sem það gerir, og yfirleitt að fara eftir þeim, þangað til þingið breytir þeim.

Rökstuðningur hv. 5. þm. Reykv. á því, að þessi ákvörðun þingsins hefði verið tóm vitleysa, var líka nokkuð hæpinn. Hann sagði, að ályktun Alþ. um það að fresta kosningunum væri studd við það, að það væri gert vegna þess ástands, sem skapazt hefði í landinu, og að allt tal um slíkt ástand væri tóm vitleysa, og það byggði hann á því, að þar sem talað væri um „ástand“ í samþykktinni, þá byggðist það á því, að tveir hernaðaraðilar berðust í landinu. En til þess var nú ekki komið, að þeir berðust „í landinu“, þegar þessi ályktun var gerð. Það getur því ekki verið ástæðan fyrir því. Nei, ástæðan var þá miklu fremur óttinn við það, að það gæti komið til. En tal hv. þm. um, að breyt. hafi orðið á þessu, vegna þess að Bandaríkin tóku við, það er tóm vitleysa, því að ástandið breyttist ekkert við það. Því að þótt Bandaríkin tækju við hervernd landsins af brezkum her, þá er þar aðeins einn aðili, sem tekur við af öðrum, og sama hættan á, að ráðist verði á seinni aðilann eins og hinn, sem var hér fyrr. Þá breytir því engu í þessu efni. Þó að svo ætti að heita um nokkurntíma, að Bandaríkin væru hlutlaus, eftir að þau tóku að sér hervernd landsins, það vita allir, að því fór fjarri, að hinn ófriðaraðilinn teldi þau hlutlaus á þeim tíma, þó að formlega væri ekki komið til neins ófriðar milli þeirra ríkja. Nei, það er náttúrlega alveg tvímælalaust, að samþykkt Alþ. um frestun almennra alþingiskosninga frá 1941 styðst nákvæmlega við sömu rök nú eins og þá. Og úr því að Alþ. hafði verið búið að gera þessa samþykkt, þá er það mín skoðun, að ríkisstj. hafi orðið að haga sér eftir því, þangað til Alþ. breytti þeirri samþykkt. Hitt er svo annað mál, að þetta háa Alþ., sem nú er komið saman, endurskoðar að sjálfsögðu sitt álit á þessu og hagar sér gagnvart þessari samþykkt eftir þeirri niðurstöðu, sem það kemst að um það, hvort full rök hafi verið fyrir frestuninni í upphafi. En fyrir ríkisstj. var a.m.k. ekki ástæða til að ganga út frá því sem alveg sjálfsögðum hlut, að afstaða Alþ. í þessum hlut væri orðin breytt frá því, sem hún var.

Að því er við kemur slíkri breyt. á stjórnskipunarl., sem hefur vexið lögð fyrir þetta hæstv. Alþ. af hv. Alþfl. og segja mætti, að ástæða hefði getað verið til að bera fram á þessu þingi, þó að ekki væri ráðizt í að endurskoða stjórnskipunarl. öll frá rótum, þá er aðeins þess að gæta, að þess var náttúrlega alls ekki að vænta, að sú ríkisstj., sem nú situr, eins og hún er skipuð ag verkum er skipt í ríkisstj., að hún færi fram frv. í þá átt. Að sjálfsögðu veit þessi hv. þm. það, að það er hæstvirts forsrh. að bera fram frv. um breyt. á stjórnskipunarl. af hálfu ríkisstj., ef ríkisstj. á. annað borð ber slíkt frv. fram. Og þar sem það er vitað nú og raunar var vitað áður, að sá hæstv. ráðh, er algerlega andvígur þeirri breyt. á stjskr., sem þetta frv. fer fram á, þá var þessa auðvitað ekki að vænta. Þetta er því sagt alveg út í hött, að þingið hafi haft lélega forustu í þessu máli, þar sem ríkisstj. sé, því að þar var engrar forustu að vænta í þessu máli, og það hlaut hv. þm. að vita fyrirfram. Hitt er annað mál, hvort einstakir meðlimir ríkisstj. flytji frv. um slíkt mál sem þetta aðeins sem þm. En það átti hv. 5. þm. Reykv. ekki við. Annars held ég, að þessi hv. þm. hafi nú talað um þetta forustuleysi í málinu af ríkisstj. hálfu aðallega í sambandi við hitt, að endurskoða stjskr. með tilliti til þeirrar breyttu afstöðu, sem Ísland hefur nú til síns fyrra sambandslands. En þá er bara aftur því til að svari, að hið háa Alþ. hafði ákveðið að slá því máli á frest fyrst um sinn vegna ákvörðunar Alþ. um það, alveg eins og það ákvað að fresta kosningunum, þó að það væri ekki að öllu leyti byggt á söm,u rökum. Ályktun Alþ. um sjálfstæðismálið frá 17. júní 1941 var á þá leið, að Alþ. teldi, hvað þetta snerti, ekki tímabært að svo stöddu vegna ríkjandi ástands að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipun ríkisins, enda yrði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka

Þarna hefur síðasta Alþ. gefið undir fótinn um, að það ætlaðist til, að slík endurskoðun færi ekki fram fyrr en að stríðslokum. Þess vegna er þess ekki að vænta, að stj. beiti sér fyrir endurskoðun stjskr, á þessu þingi. Ég verð því í rauninni að snúa orðum þessa hv. þm. nokkuð við, þar sem hann staðhæfir, að hann hafi rétt fyrir sér í ásökunum í garð stj. í þessu sambandi, og slá því föstu, að það, sem ég segi, sé laukrétt. En ásakanir hans í garð stj. í þessu sambandi eru allar út í hött, vegna þess hvaða afstöðu þingið hefur áður tekið í málinu. En hitt geri ég ráð fyrir, að þingið, vilji ekki fallast á að athuguðu máli, að það eigi að vera undir mati stj. komið á hverjum tíma, eftir hverju hún eigi að fara af því, sem þingið ákveður, heldur sé það þingið sjálft. Það er nógu mikið talað um einræðistilhneigingar ríkisstjórna, og eins þessarar stj. á þessum tímum, þó að ekki sé beint verið að ala á því, að hún gangi lengra í þessu sambandi heldur en hún finnur ástæðu til að gera.